One night only. Watch a film inside an ice cave | Check it out!

Að fara hringferð um landið er án efa eitt vinsælasta ferðalag landsmanna yfir sumartímann. Í þessum vegvísi drögum við fram sérstöðu hvers landssvæðis og segjum frá töfrandi áfangastöðum og einstakri náttúru í öllum landshlutum. Ferðalagið getur verið allt frá 6 dögum upp í tvær vikur, allt eftir því hversu lengi þú velur að dvelja á hverjum stað og njóta þess sem svæðin hafa upp á að bjóða. Hér lýsum við 6 daga ferð um landið en bendum á skemmtilega útúrdúra og leiðir til að lengja ferðalagið, t.d. með því að bæta við auka ferðalagi á Vestfirði eða Snæfellsnes.

Dagur 1: Reykjavik - Kirkjubæjarklaustur

Allir sem ákveða að yfirgefa Reykjavík og halda út á þjóðveg eitt í leit að ævintýrum á góða daga í vændum. Við byrjum að aka suður en á Suðurlandi eru nokkrir tignarlegustu fossar landsins, svartar sandfjörur sem heillað hafa íbúa alls heimsins, skínandi jökultindar, stórbrotin saga við hvert fótmál, hellar og freyðandi ár. Komdu með okkur og við skulum benda þér á nokkra áhugaverða áfangastaði og töfrandi viðfangsefni. Þetta er landið þitt! Hveragerði er einn af heitustu stöðum landsins því þorpið er byggt á jarðhitasvæði. Þar er margt hægt að sjá og upplifa. Þar er gott bakarí og eini jarðskjálftahermir landsins. Í dalnum inn af Hveragerði er upphaf gönguleiðar inn í Reykjadal þar sem hægt er að baða sig í heitri á. Slóðin er 7 km fram og til baka. Á Selfossi er safn í minningu Bobby Fischer fyrrum heimsmeistara í skák. Hann er grafinn í kirkjugarðinum í Laugardælum rétt utan við þorpið. Rétt austan við Selfoss er skilti sem vísar á Eystra-Meðalholt steinsnar frá þjóðvegi en þar hefur verið reist áhugavert safn um þróun íslenska torfbæjarins. Spölkorn austan við Selfoss er ekið yfir Þjórsá. Rétt við brúna er afleggjari niður að Urriðafossi sem er tilkomumikill en lágur foss. Á Hvolsvelli eru framleiddar pylsur og þar má beygja af þjóðvegi og aka fram Fljótshlíð þar sem fyrr var oft í koti kátt enda héraðið löðrandi í sögu lands og þjóðar. Skammt austan við Hvolsvöll rís lágt fjall yfir umhverfið. Það heitir Dímon og við rætur þess er Gunnarshólmi því þetta eru söguslóðir Njálu. Örstutt ganga upp á Dímon sýnir okkur umhverfið í nýju ljósi.

Seljalandsfoss, Gljúfrabúi og Skógafoss

Vinsælasti áfangastaður á Suðurlandi austanverðu er áreiðanlega Seljalandsfoss þar sem ganga má bakvið vatnið. Margir aðrir fossar stórir og smáir eru í nágrenninu og þeirra þekktastur Gljúfrabúi rétt norðan við Seljalandsfoss. Gljúfrabúi er luktur klettaveggjum en hægt að ganga inn og standa nánast undir vatninu. Frá fossinum liggur jeppavegur inn í Þórsmörk. Skógafoss er neðstur meira en 20 fossa í Skógá sem fellur ofan af Fimmvörðuhálsi. Hann er einn fegurstu fossa Íslands og verður skoðunar. Á Skógum er margvísleg þjónusta en rétt er að benda á að frá bílastæði við byggðasafnið má ganga austur stuttan spöl og skoða Kvernufoss sem er gríðarlega fallegur og hægt að ganga bakvið hann. Sannkallað ævintýraland.

Sólheimajökull

Skammt austan Skóga skríður Sólheimajökull fram úr Mýrdalsjökli. Stuttur akstur er að bílstæði skammt frá sporðinum og ca. 20-30 mínútna ganga inn að jökulstálinu. Umhverfið allt er afar stórbrotið og hámark slíkrar heimsóknar væri að fara í jöklagöngu á ísnum þar sem þú færð virkilega að upplifa hráu náttúruna. Aukastopp - DC-3 Flugvélaflakið á sandinum - Skammt austan við Jökulsá á Sólheimasandi er merkt bílastæði við upphaf 3 km gönguslóðar sem liggur að Douglas eða DC-3 flugvélarflaki sem liggur á sandinum. Flakið hefur öðlast talsverða frægð á samfélagsmiðlum undanfarinna ára.

Dyrhólaey og Reynisfjara

Dyrhólaey er klettahöfði sem gengur í sjó fram við Mýrdal og er stórt gat gegnum klettinn fremst. Í Dyrhólaey er fágætt fuglalíf og stórbrotið umhverfi með eindæmum. Meðal annars er þar lundavarp og algengt að sjá hann þar fyrir utan holur sínar. Einu sinni hefur flugvél verið flogið gegnum gatið í klettinum.

Við enda Reynisfjalls er Reynisfjara með tilkomumiklu stuðlabergi, fuglalífi og hellum. Þetta er einn vinsælasti áfangastaður erlendra ferðamanna á Íslandi. Fara verður varlega í fjörunni vegna sjógangs en slys hafa orðið á gestum í fjörunni undanfarin ár. Lundi verpir í holum fyrir ofan stuðlana í Reynisfjöru og útsýnið til Reynisdranga er óviðjafnanlegt. Í Vík í Mýrdal er margvísleg þjónusta, gisting og afþreying fyrir ferðamenn og umhverfi þorpsins einkar snoturt. Við bæinn Höfðabrekku rétt austan við þorpið er afleggjari sem liggur inn í Þakgil fær flestum bílum. Þar er stórbrotin náttúra og svipmikil, tjaldstæði og þjónusta. Það er auðvelt að eyða endalausum tíma á suðurströndinni svo ef þið hafið auka dag þá mælum við hiklaust með að skoða fleiri staði. Smellið hér til að lesa meira um suðurströndina og áhugaverða staði á leiðinni. Seljavallalaug, Kvernufoss, Hjörleifshöfði, Mýrdalssandur, Þakgil, Álftaversgígar, Laufskálavarða, Eldhraun, fjöldi fossa og margt fleira. Við höldum áfram hringveginn og bendum á að hægt sé að finna ýmsar gistingar í boði bæði á Vík eða Kirkjubæjarklaustri, í um klst keyrsla frá Vík.

Dagur 2: Klaustur - Höfn

Í þessari ferðalýsingu var ákveðið að á við Kirkjubæjarklaustur eða Klaustur eins og flestir Íslendingar kalla sveitarfélagið í daglegu tali. Klaustur er umlukið fallegri náttúru og sögu og þar hefur veðursæld verið mikil í gegnum tíðina.

Fjaðrárgljúfur og lakagígar

Fyrir þá sem vilja kynna sér staðarhætti betur er ekki hjá því komist að mæla með því að skoða eitt stórbrotnasta náttúruundur landsins, Fjaðrárgljúfur. Gljúfrið er skammt vestan við Klaustur og er einfaldast að aka að gljúfrinu eftir Lakavegi/Holtsvegi þaðan sem gengið er upp að ánni og síðan upp með gljúfrinu sjálfu. Rétt er að benda á að hinir frægu og sögulegu Lakagígar og Langisjór eru ekki langt frá Klaustri en gera þarf ráð fyrir góðum degi í að skoða þá staði sérstaklega.

Þegar ekið er frá Klaustri er ekki úr vegi að stoppa við Foss á Síðu og skoða í leiðinni fallega stuðlabergshamra sem eru þar skammt frá. Tilkomumikill foss fellur ofan af klettunum við bæinn Foss á Síðu úr Þórutjörn og er greiðfær gönguleið upp á Þórutjörn þaðan sem útsýni er fallegt. Skammt þar frá eru hinir sérkennilegu og fagurlega formuðu stuðlabergs klettaborgir Dverghamrar, rétt neðan við veginn. Ofan á stuðlunum er víða það sem kallast kubbaberg og er landslagið talið hafa fengið á sig þessa mynd í lok ísaldar. Dverghamrar eru friðlýst náttúruvætti. Áður en keyrt er yfir Skeiðarársand blasir við tignarmikið fjall sem heitir Lómagnúpur. Vestan við hann stendur bærinn Núpsstaðir og er stórbrotið umhverfi Núpsstaðar og Lómagnúps vel þekkt. Svæðið nær frá sjó og svörtum söndum til Vatnajökuls og hafa eldgos, jöklar og vötn mótað umhverfið. Um leið og ekið er framhjá Lómagnúp er ekið inn á gríðarstórt sandflæmi undan Skeiðarárjökli sem nær til sjávar og ber nafnið Skeiðarársandur. Skeiðarársandur er myndaður af framburði jökuláa og er stærsti sandur í heimi.

Skaftafell

Þegar komið er yfir sandinn er ekki hjá því komið að staldra við í náttúruparadísinni Skaftafelli. Fjölmargar vel merktar gönguleiðir eru í Skaftafelli, bæði lengri og styttri, og auðvelt að nálgast upplýsingar um alla afþreyingu í næsta nágrenni í Skaftafellsstofu, gestastofu og upplýsingamiðstöð Vatnajökulþjóðgarðs. Óhætt er að mæla með að fara í jöklagöngu með leiðsögn sérhæfðra leiðsögumanna Arctic Adventures. Erfiðleikastigið fer eftir getu hópsins er er slík ferð á jökul ævintýraferð sem gleymist seint. Adventure Hótel Hof er síðan staðsett u.þ.b. 20 mínútur frá Skaftafelli en þar er tilvalið nýta sér sumartilboð Arctic Adventures til að næla sér í gistingu á góðu verði enda frábær staðsetning og flott umhverfi. Mælt er eindregið með því að gefa sér tíma til að stoppa oftar en einu sinni á leið til Hafnar í Hornafirði. Óvíða er útsýnið jafn myndrænt vegna þeirra andstæðna sem myndast milli auðna og gróskumikils kjarrs og gróðurs. Tilvalið er að stoppa við þau mörgu lón sem eru á leiðinni, m.a. við Svínafellsjökul, Fjallsjökul og Breiðamerkurjökul. Ferðaþjónusta hefur byggst upp við lónin við Fjallsjökul og Breiðamerkurjökul sem þýðir að hægt er að fara með bát út á þessi lón og sigla milli ísjaka.

Jökulsárlón og demantsströndin

Jökulsárlón er þekktasta lónið á svæðinu og er hægt að mæla með því að sigla á báti milli ísjakanna sem fljóta í lóninu. Í lóninu er mikið æti og þar syndir selur og æðafugl á milli ísjakanna sem vekur mikla athygli yngri kynslóðarinnar. Við ströndina neðan lónsins finnur þú Fellsjöruna, betur þekkt sem demantsfjaran eða e. Diamond Beach, hér hvíla ísjakarnir á sandbreiðunni og bíða þess að öldurnar taki þá á haf út.

Þá er komið að áningastað þessa dags, Höfn í Hornafirði. Höfn er eini þéttbýliskjarninn í ríki Vatnajökuls og þjónar stóru dreifbýlissvæði þar í kring. Þar er mikil og góð þjónusta og á síðustu árum hefur veitingastöðum og gististöðum fjölgað svo um munar í bænum. Eins og flestir vita er Höfn stundum nefndur Humarbærinn og árlega er haldin þar vegleg humarhátíð. Það er skylda að bragða á humar þegar komið er á Höfn og af nógu að taka þar sem hver einasti veitingastaður býður upp á gómsæta humarrétti. Gaman er að ganga um bæinn og njóta, kíkja niður á höfn, fylgjast með álftunum við lónið eða njóta sólarupprásar við eyðibýlið Horn.

Dagur 3: Höfn - Egilsstaðir

Við yfirgefum Höfn og ætlum að skoða okkur um á Austfjörðum nánar tiltekið frá Almannaskarði gegnum Suðurfirðina og upp á Egilstaði. Við ættum að leggja snemma af stað og ná sólarupprás við Stokksnes sem er stórkostlegur staður, hrikalegur og hlýr. Við Tjaldshólmann er gott að stoppa, þar er mikið fuglalíf og síðan er hægt að keyra út að Stokksnesvita. Einnig er á Stokksnesi víkingaþorp sem átti að nota í kvikmynd sem aldrei varð af. En förum til baka inn á þjóðveginn og í gegnum göngin undir Almannaskarð. Rétt eftir að komið er út úr göngunum er beygt til vinstri inn á gamla veginn sem áður lá yfir skarðið. Efst í skarðinu er komið bílastæði og þaðan er magnað útsýni yfir Hornafjörð og mikil jöklasýn til vesturs og ótal skriðjöklar Vatnajökuls eru sýnilegir á góðum degi. Eftir að komið er inn á þjóðveginn aftur er rétt að horfa til fjalla næstu kílómetrana, nokkrir dalir skera sig þar inn og oft má sjá hreindýr á þessum slóðum og fuglalíf mikið. Áður en komið er að Jökulsá í Lóni er vegur #980 sem liggur inn dalinn og alla leið inn á Illakmb í Nesi en norðan við ánna er annar vegur sem liggur inn með ánni og er þokkalega fólksbílafær meðfram sumarhúsabyggð sem þar er og inn að Smiðjunesi. Svæðið í heild er einstaklega fallegt og litríkt. Stafafellsfjöll eru norðan við dalinn og inn af svæðinu heita Lónsöræfi.

Við höldum áfram meðfram Lónsfirði og virðum fyrir okkur Hvalsnesfjöru þar til við komum að afleggjara niður að Hvalsnesvita en þar tökum við myndastopp. Næstu áfangastaðir eru Hvalsnesskriður og Þvottárskriður og eftir þá síðari er gaman að koma niður í Stapavík og Bása þar sem hafið brýtur stanslaust á landinu. Þegar ekið er í skriðunum er mjög fallegt og tilkomumikið að nema staðar á merktum útsýnisstöðum sem þar eru. Fjaran og skriðurnar eru Instagram staðir og um að gera að hafa augun opin, þessi útskot sem eru merkt eru öll þess virði að skoða. Álftafjörður og inn af honum ganga Flugustaðardalur og Hofsdalur sem rétt er að gefa gaum en rétt áður en þangað er komið eru Oddsvík og Fúlavík og þar er votlendi sem hýsir fugla sem una sér vel. Framan við bæina Starmýri má mjög oft sjá hreindýr fyrripart sumars en þau hverfa svo inn í dalina miðsumars. Geithellnadalur er fallegur og gróinn dalur og eftir honum rennur Geithellnaá. Hægt er að sniglast inn dalinn beggja vegna árinnar ef farið er á jeppa. Á heitum dögum litast vatn í ánni og er það jökull bæði frá Þrándarjökli og Hofsjökli. Innst úr dalnum liggur gönguleið yfir í Víðidal en þá er farið um nokkuð bratt varp innst í dalnum.

Djúpivogur er snyrtilegt þorp með liðlega 300 íbúum. Fallegt hafnarsvæðið setur mikinn svip á staðinn. Eggin í Gleðivík eru meðal þess sem sjá má en það eru útilistaverk eftir Sigurð Guðmundsson. Á staðum eru nokkrir steinasafnarar sem sýna verkin sýn og svo er einn besti fuglaskoðunarstaður landsins ef ekið er í átt að flugvellinum sem er suðaustan við þorpið. Þar er búið að koma fyrir fuglaskoðunarhúsi og á góðum degi er mikið líf og margt að sjá. Gömul hús setja svip sinn á staðinn þar á meðal Langabúð, þar sem eru söfn Eysteins Jónssonar stjórnmálamanns og Ríkarðs Jónssonar listamanns, minjasafn og kaffihús.

Við höldum inn Berufjörðin en stoppum á stæði rétt áður en komið er að Teigarhorni en þann 22. júní 1939 mældist þar mesti hiti sem mælst hefur á Íslandi, 30,5 °C. Fjaran fyrir framan Teigarhorn er mikið augnayndi og fjöllin bakatil, Búlandstindur, Goðaborg og Nóntindur eru einstaklega tignarleg og ef tími er til er hægt að kíkja inn í Búlandsdalinn. Búlandstindur setur mikinn svip á fjörðinn og egghvass fjallarhringurinn, gnípur og ríolítinnskot eru áberandi. Norðan megin fjarðarins er grænleitt flikruberg áberandi í lágum grænum höfða. Innst í Berufirði eftir að hafa farið framhjá bænum Lindarbrekku þá greinist vegurinn og hægt að fara tvær leiðir upp á Egilstaði, um Öxi #939 sem er tilkomumikill fjallvegur og meðan ekið er upp og inn þann veg má sjá þar í ánni fjölda fossa. Tveir þokkalegir útsýnisstaðir þar sem hægt er að stoppa eru á leiðinn uppúr Berufirði þar sem sér út fjörðinn. Leiðin liggur yfir í Skriðdal og þaðan á Egilstaði en þjóðvegur #1 liggur yfir í Breiðdal. Við höldum okkur við ströndina á þjóðvegi #1 og komum í Breiðdal sem er óvenju víðlend sveit miðað við aðra dali sem ganga inn af Austfjörðum og vissulega margt sem má skoða á þessum slóðum. Stöðvarfjörður liggur milli Fáskrúðsfjarðar og Breiðdalsvíkur. Fjörðurinn er grunnur, undirlendi og jarðnæði frekar takmarkað. Um Stöðvardal fellur samnefnd á út í fjörð og myndar svonefnda Öldu við sjóinn. Fjallahringur Stöðvarfjarðar er óhemjufagur. Ofan kauptúnsins eru Steðji og Sauðabólstindur og sunnan við fjörðinn eru Súlurnar. Þangað er krefjandi en áhugaverð gönguleið. Neðan þeirra eru Kambanesskriður og þar er afskaplega fallegt útivistarsvæði. Í Jafnadal er steinbogi í hlíðum Álftafells og einnig klettaþyrpingin Einbúinn. Í þessum gömlu fjöllum hefur fundnist velflest það sem sjá má í steinasafni Petru sem margir heimsækja. Fáskrúðsfjörður merkilegt þorp og eina þorpið á Íslandi þar sem allar götur eru á íslensku og frönsku, franski menningararfurinn. Tengingin við Frakkland á rót að rekja til veiða franskra sjómanna undan Austfjörðum.

Egilsstaðir

Egilsstaðir eða nágrenni verður náttstaður okkar en frá Egilstöðum er hægt að fara á Seyðisfjörð um hálftíma akstur #93 afar falleg leið niður í fjörðinn þar sem vegurinn hlykkjast meðfram Fjarðaránni, margir fallegir fossar og mikið útsýni. Mörg gömul hús sem hafa gengið í endurnýjun prýða miðbæinn og gaman að ganga um og njóta. Við gætum einnig skroppið á Borgarfjörð eystri og eytt kvöldinu þar. Hafnarhólminn er einn besti fuglaskoðunarstaður landsins og lundinn þar í þúsundatali. Frá Borgarfirði liggur hin vinsæla gönguleið um Víknaslóðir. Fiskisúpa hjá Kalla Sveins gæti verið fullkominn endir á góðum degi. Ef við hinsvegar kjósum að verja kvöldinu í nágrenni Egilstaða er ótalmargt sem hægt er að gera. Við gætum ekið umhverfis Löginn og heimsótt Hengifoss og Litlanesfoss. Farið inn í Hallormsstað og gengið um stígana þar. Heimsótt Atlavík og leitað að Lagarfljótsorminum eða farið inn að Skriðuklaustri og Snæfellsstofu, gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðsins eða heimsótt Óbyggðasetrið.

Hengifoss er næst hæsti foss landsins, 128 m frá fossbrún og að botni hins stórfenglega og litríka gljúfurs. Bergveggirnir í gljúfrinu sýna ólík jarðlög frá eldgosum á tertíertíma jarðsögunnar þegar Ísland var að myndast. Það tekur um 40-60 mínútur að ganga frá bílastæði að fossinum. Á leiðinni er annar foss sem heitir Litlanesfoss. Sá er krýndur stuðlabergi sem er með því hærra á landinu og einstaklega myndrænt. Óbyggðasetur Íslands e. Wilderness Center er staðsett nærri botni Norðurdals, í jaðri stærstu óbyggða Norður-Evrópu. Á Óbyggðasetrinu er boðið upp á fjölbreytta upplifun og afþreyingu s.s. sýningar um líf í óbyggðum og við jaðar þeirra, hestaferðir, gönguferðir inn með ánni þar sem ótal fossar eru en þar er einnig kláfur yfir ánna sem hægt er að prófa, gisting á baðstofulofti og gömlu íbúarhúsi, fjölbreyttar veitingar í eldhúsi og betri stofum heimilisins.

Dagur 4: Egilsstaðir - Akureyri

Jökuldalur

Þegar ekið er yfir Langarfljótsbrú gegnum Fellahverfi norður frá Egilsstöðum og stefnan tekin eftir hringveginum upp í Jökuldal gæti fyrsti viðkomustaður verið Náttúrulaugarnar Vök við Urriðavatn. Fallegur baðstaður með heitum laugum sem byggðar eru út í vatnið. Sannkölluð heilsulind. Við brúna yfir Jökulsá á Brú fellur áin í djúpu gljúfri og mun brúin vera sú hæsta á landinu, 40 metra yfir ánni. Margar ársprænur falla niður hlíðina í Jökuldal og fjöldi fossa. Tilkomumestur er Rjúkandafoss rétt áður en komið er að bænum Skjöldólfsstöðum. Aðeins örfáar mínútur tekur að ganga upp að þessum tilkomumikla fossi, en heildarhæð hans er tæpir 140 metrar. Skömmu síðar liggur hringvegurinn upp úr dalnum en þar er tilvalið að taka krók inn með Jökulsá á Dal upp Efri-Jökuldal (vegur 923) að Stuðlagili við bæinn Grund. Gilið er snarbratt og djúpt og stórbrotið stuðlaberg á báða vegu. Einstök náttúruperla sem fæstir hafa augum litið. Frá hringveginum að Stuðlagili er aðeins um 15 til 20 mínútna akstur.

Öræfi

Hringvegurinn liggur síðan áfam upp úr dalum í átt að Möðrudalsöræfum. Þegar komið er upp á heiðina má aka gamla malarveginn að Möðrudal og skömmu eftir að beygt er inn á hann liggur vegarspotti að Sænautavatni og Sænautaseli. Af Möðrudalsheiði liggur vegur niður í Vopnafjörð en hringvegurinn áfram yfir öræfin. Þar má víða staldra við og njóta víðernisins. Vinsæll útsýnisstaður og merkt bílastæði er skömmu áður en komið er að nyrðri afleggjaranum að Möðrudal og ægifagurt útsýni í allar áttir. Allt suður til Herðubreiðar og Dyngjufjalla. 

Herðubreið og Askja

Þegar komið er yfir brúna, sem er gullfalleg einbreið hengibrú, liggur fjallvegur (F88) til vinstri við Hrossaborg suður eftir hálendinu með Jökulsá að Herðubreiðarlindum og Öskju. Að Herðubreið eru yfir 60 kílómetrar og rúmir 100 að Öskju og Öskjuvatni. Vegurinn er aðeins fær að sumri velútbúnum ökutækjum. Herðubreið er fegurst fjalla, 1682 metra hátt móbergsfjall sem myndaðist á ísöld með gosi undir jökli. Oft nefnd „Drottning íslenskra fjalla“. Hægt er að klífa Herðubreið en það er bæði löng og ströng ganga og ekki á allra færi. Askja og Öskjuvatn eru einstakar náttúruperlur á hálendinu og sömuleiðis Kverkfjöll við Vatnajökul, en þar er mikið háhitasvæði. Í vikulangri hringferð um landið eru sú undraveröld vitaskuld utan seilingar.

Dettifoss

Dettifossvegur (862) liggur niður með Jökulsá að vestan. Um 25 kílómetrar eru frá hringveginum að Dettifossi og Selfossi. Frá bílastæðinu við Dettifoss er um 10 mínútna ganga að fossinum eftir merktum göngustígum. Dettifoss er vatnsmesti og kröftugasti foss á Íslandi og raunar allri Evrópu. Fossinn er 45 metra hár og rúmlega 100 metra breiður. Fossinn er magnað náttúrufyrirbæri og hefur lengi verið skáldum vinsælt yrkisefni. Um einum kílómetra ofar er Selfoss og þangað liggja einnig merktar göngubrautir. Nokkru neðar í gilinu er Hafragilsfoss. Þangað liggur vegarslóði.

Frá Dettifossi liggur vegurinn (862) áfram til norðurs niður með Jökulsá að Réttarfossi, Hólmatungum, Vígabjargi, Vígabjargsfossi og áfram niður í Vesturdal og að Hljóðaklettum, og þaðan niður að Ásbyrgi í Öxarfirði. Ekki er sá vegur allur fólksbílafær. Allt eru þetta ægifagrir staðir og ógleymanlegar gönguleiðir meðfram og ofan í gljúfrinu. En sé meiningin að ná náttstað á Akureyri frá Egilsstöðum verður öll þessi undraveröld að bíða betri tíma. Eindregið má þó mæla með því að lengja ferðina um heilan dag eða lengur og sækja þetta svæði heim, þú munt ekki sjá eftir því! Frá Öxafirði má síðan aka um Tjörnes til Húsavíkur og þaðan um Aðaldal og Köldukinn að hringveginum við Ljósavatnsskarð. Eins má aka frá Öxarfirði norður á Melrakkasléttu og Langanes. Heimsækja þar Kópasker, Raufarhöfn og Þórshöfn við ystu höf.

Mývatn

Mývatnssveit er ein helsta náttúruperla landsins. Þar er margt að sjá og skoða og vandalaust að verja þar heilum degi eða dögum. Í sveitinni er öflug ferðaþjónusta, fjöldi gisti- og veitingastaða og fjölbreytt afþreying í boði. Óteljandi gönguleiðir um magnað landslag og lífríki. Sannarlega eitthvað fyrir alla – og gott betur. Vatnið sjálft er mikil paradís með einstaklega fjölbreyttu fuglalífi og góðri silungsveiði. Hringvegur er kringum vatnið og stórbortin náttúra við hvert fótmál. Þéttbýli er við Reykjahlíð, Voga og Skútustaði. Mýflugurnar, sem vatnið dregur nafn sitt af, geta á stilltum góðviðrisdegi angrað gesti og gangandi.

Á vikulöngum hringtúr um landið er ekki hægt að sjá og gera allt. Við mælum þó með því að verja nokkrum klukkustundum við Mývatn. Helstu viðkomustaðar gætu þá verið: Jarðböðin, Grjótagjá, Höfði, Hverfjall, Dimmuborgir og gervigígarnir við Skútustaði. Jarðböðin eru heilsulind og náttúrulegur baðstaður með afar heilnæmu og steinefnaríku vatni úr borholu í Bjarnarflagi. Vatnið er ríkt af alkalímálmum, 36 – 40 gráðu heitt og almenn trú á svæðinu að það hafi langvarandi lækningamátt. Eimbað er við laugina og heitur pottur. Hrífandi útsýni. Grjótagjá er hraungjá eða hellir með heitu vatni og var lengi vinsæll baðstaður. Að gjánni liggur greiðfær vegur. Í Kröflueldum 1974-84 hækkaði hitastig vatnsins og varð Grjótagjá þá ófær til baða. Þótt hitinn hafi lækkað á ný á síðustu áratugum og nálgist nú sitt fyrra stig, er þar enn of heitt og stranglega bannað að baða sig. Eftirminnilegt atriði úr Krúnuleikunum (Game of Thrones) var myndað í Grjótagjá og hefur sveitin og vatnið verið vinsæl leikmynd fyrir kvik- og sjónvarpsmyndir á síðustu árum.

Dimmuborgir eiga sér enga hliðstæðu, hérlendis sem erlendis. Borgirnar eru einstæðar hraunmyndanir með klettum, nibbum, súlum, bogum, götum, hellum, gjótum og sprungum, og ná yfir stórt landsvæði. Vegur liggur þangað steinsnar frá hringveginum kringum Mývatn og stórt bílastæði við innganginn – auk verslunar og þjónustumiðstöðvar. Frá stæðinu liggur göngustígur inn í borgirnar og greinist í ótal áttir. Má þar velja fjölda greiðfærra gönguleiða, stuttar og langar, allar vel merktar. Hringvegurinn til vesturs frá Mývatnssveit liggur um Mývatnsheiði framhjá Másvatni niður Reykjadal. Í miðjum dalnum er skólasetrið Laugar. Þar er jarðhiti, sem víðar á þessum slóðum. Merkur mýveskur klerkur sagði eitt sinn að fallegasta útsýni í dalnum væri frá bænum Hólum; „því þar sést bara beint upp í himininn“.Ekki amalegt.

Úr Reykjadal liggur vegurinn yfir Fljótsheiði hjá Einarsstöðum og niður í Bárðardal handan heiðar. Niður Bárðardal fellur Skjálfandafljót og rétt við brúna hjá Fosshóli er Goðafoss, kunnastur af fjölmörgun fossum þessa vatnsmikla fljóts, formfagur og glæsilegur á að líta. Frá Goðafossi liggur hringvegurinn um Ljósavatnsskarð og Fnjóskadal. Þar er Vaglaskógur, annar mesti birkiskógur landsins, rúmir 300 hektarar. „Draumar þess rætast sem gistir Vaglaskóg“. Gamla bogabrúin yfir Fnjóská er sannkallað augnayndi og þjónar nú einungis gangandi vegfarendum. „Við skulum tjalda í grænum berjamó“. Góð hugmynd! Tilvitnanir eru í kvæði Kristjáns frá Djúpalæk – Vor í Vaglaskógi.

Akureyri

Óþarft er að fjölyrða um höfuðstað Norðurlands. Akureyri. Þar má finna, sjá og upplifa allt sem hugurinn girnist – njóta alls hins besta. Tilvalinn svefn- og griðastaður að kveldi fjórða dags í vikulöngum hringtúr um landið. Akureyringar landsþekktir fyrir ljúfan hug. Gestrisnir og greiðviknir. Bæjarstæðið við botn Eyjafjarðar er reisulegt. Súlur og Hlíðarfjall teygja sig til himins, Glerárdalur á milli. Innar gnæfa Tröllafjall og Kerling, hæsta fjall á norðurlandi. Aka má upp í Hlíðarfjall, á öllum árstíðum, og ganga þar þindarlaust að sumri. Fjallganga á Kerlingu (1538 m.y.s.) er næstum dagsverk en virkilega þess virði. Á Akureyri er líka eindæma veðursæld. Hvarvetna grænt og gjöfult. Oftast sól og blíða. Sjaldan gola. Aldrei rok. Sel það ekki dýrara.

Dagur 5: Akureyri - Skagafjörður

Nú höldum við áfram á hringveginum. Á degi 5 getum við annars vegar valið um að keyra Tröllaskagann eða halda áfram um hringveginn, við mælum að sjálfsögðu með að þið veljið tröllaskagann en lýsum báðum leiðum hér að neðan og leyfum ykkur að velja.

Leið 1: um Tröllaskaga

Frá Akureyri er farið fyrir Tröllaskagann gegnum Dalvík, Ólafsfjörð og Siglufjörð. Ekið er í gegnum þrenn jarðgöng á þessari leið en ekkert veggjald er greitt í göngin. Eftir Siglufjörð liggur leiðin um Fljótin og þaðan til Skagafjarðar. Hægt er annaðhvort að aka suður að hringvegi eða beygja til hægri veg 75 yfir Héraðsvötn til Sauðárkróks og þaðan suður að Varmahlíð að hringvegi.

Dalvík

Þegar komið er út fyrir Akureyri er ekið stutta stund eftir hringveginum þar til beygt er til hægri inn á Ólafsfjarðarveg (nr. 84) en þaðan er um hálftíma akstur til Dalvíkur. Á Dalvík er tilvalið að skella sér í hvalaskoðun eða RIB hraðbátaferð með Arctic Adventures /Arctic Sea Tours. Einnig er frábær 25 metra sundlaug í bænum með heitum pottum og gufubaði. Veitingastaðurinn Gísli Eiríkur Helgi er tilvalið hádegisstopp með sína ljúffengu ,,heimsfrægu” fiskisúpu. Eftir gott stopp á Dalvík er haldið áfram á Ólafsfjörð gegnum Ólafsfjarðargöng. Frá Ólafsfirði til Siglufjarðar er farið gegnum Héðinsfjarðargöng og tilvalið stopp á þeirri leið er einmitt í Héðinsfirði þar sem hægt er að njóta útsýnis og kyrrðar í þessum afskekkta dal við norðanverðan Tröllaskaga.

Siglufjörður

Síðan er haldið gegnum seinni hluta ganganna og þegar ekið er út úr þeim blasir byggðin á Siglufirði við hinum megin fjarðar. Á Siglufirði er hiklaust hægt að mæla með heimsókn á Síldarminjasafnið sem höfðar til allra aldurshópa. Síldarvinnsla á Siglufirði fram yfir miðjan hluta tuttugustu aldar er sannarlega mikilvægur þáttur í atvinnuuppbyggingu landsins sem ýtti undir efnahagslega velmegun þjóðarinnar frá fátækt fyrri alda. Fyrir áhugasama er hægt er að læra um áhugaverðu sögu Siglufjarðar í þáttaröðinni Siglufjörður – saga bæjar á vef RÚV. Einnig er upplagt að rölta um bryggjusvæðið og virða fyrir sem smábátana og mögulega sjómenn við vinnu. Þar má einnig finna kaffi og veitingahúsin Hannes Boy og Kaffi Rauðku. Hægt er að taka brugghús kynningu í Segull 67 brugghúsi í gamla frystihúsinu eða borða ljúffengan marokkóskan mat á veitingastað Siglunes Guesthouse. Nokkrar bæjarhátíðir eru í bænum yfir sumarið: Þjóðlagahátíð, Trilludagar, Ljóðahátíð og Síldarævintýrið.

Frá Siglufirði er farið um Siglufjarðarveg í Fljótin. Vegur þessi verður oft ófær á vetrum þar sem hann liggur undir bröttum hlíðum fjalla sem ná í sjó fram. Þegar sveigt er inn í Fljótin, má stoppa við útsýnisstað á hægri hönd. Þar má virða fyrir sér útsýni yfir Miklavatn og upp til fjalla á Tröllaskaga. Þegar áfram er haldið inn í Fljótin má stoppa á Brúnastöðum, litlum húsdýragarði með öllum helstu íslensku húsdýrunum s.s. geitum, grísum, kanínum, lömbum og þar eru líka nokkrir yrðlingum. Þaðan er svo haldið áfram eftir þessum vegi við nyrsta haf inn Skagafjörð. Út á firðinum blasa við tvær eyjar, önnur nær okkur og mun stærri, Málmey. Hin sem fjær er, Drangey, sem þekktust er úr Grettissögu.

Hosós

Þegar áfram er ekið suður Skagafjörð er stutt á Hofsós, þar sem tilvalið er að gera stutt stopp. Þar má finna ein elstu verslunarhús landsins, frá seinni hluta átjándu aldar og Vesturfarasetur sem fjallar um þá sem fluttu búferlum til Vesturheims á síðari hluta nítjándu aldar og byrjun þeirrar tuttugustu. Fyrir sundþyrsta mælum við með sundlauginni á Hofsósi en hún er víða talin ein flottasta sundlaug landsins (ef ekki flottasta). Þarna rennur laugin saman við Skagfjörðinn þegar verið er í lauginni og horft út eftir firðinum. Gegnt sundlauginni er einnig gott aðgengi að Staðarbjargarvík, fallegu stuðlabergi sem staðsett er í fjörunni við Hofsós.

 

Stuttu eftir að haldið er aftur út á þjóðveg er komið að Grafarkirkju sem telja má til elstu húsa sem enn standa á Íslandi. Bærinn á Gröf er líklega þekktastur fyrir að þar bjó fyrstu ár ævi sinnar, Hallgrímur Pétursson sálmaskáld og prestur og sá sem einnig var sendur til Kaupmannahafnar að uppfræða þá Íslendinga sem bjargað var úr barbaríinu, um kristindóminn. Þó kirkjan sé lokuð almenningi er þó heimilt að virða hana fyrir sér að utan. Áfram suður Skagafjörð, einnig á vinstri hönd er stuttur akstur inn að Hólum í Hjaltadal, sem lengi var annað af tveimur biskupssetrum Íslands. Þegar áfram er haldið má fljótlega, annaðhvort beygja inná veg 75 yfir til Sauðárkróks eða halda áfram suður sem leið liggur að hringveginum og beygja þá til hægri að Varmahlíð. Ef farið er um Sauðárkrók er gaman að koma við á Glaumbæ í Skagfirði, vel varðveittum torfbæ sem er hluti af Byggðasafni Skagfirðinga. Sumir hlutar byggingarinnar ná aftur til átjándu aldar. Í öðru húsi á svæðinu má finna Áskaffi sem býður uppá skemmtilegt hefðbundið bakkelsi. Suður frá Glaumbæ er svo örstutt í Varmahlíð.

Leið 2: um hringveginn

Frá Akureyri er ekið stutt norður Eyjafjörð áður en beygt er inn Hörgárdalinn, langan dal með háum fjöllum á báðar hendur. Vel áleiðis inn dalinn, þegar Öxnadalurinn hefur tekið við, á hægri hönd, blasir við fjallið Hraundrangi og þar fyrir neðan má sjá fæðingarstað þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar, Hraun í Öxnadal. Þaðan er ekið upp á Öxnadalsheiði sem er með hærri fjallvegum landsins, 540 m. Áhugavert er að stoppa efst uppi á heiðinni við veðurstöðina, þar sem horfa má upp til fjalla og niður eftir dalnum. Þegar komið er niður af Öxnadalsheiði tekur Norðurárdalur við sem liggur niður í Skagafjörð. Þar á hægri hönd er Silfrastaðakirkja sem er áttstrend að lögun. En torfkirkja sem áður var á bænum er nú á Árbæjarsafni í Reykjavík. Skagafjörðurinn er vettvangur atburða sem fjallað er um í Sturlungu s.s. Örlygsstaðabardaga og Haugsnesbardaga sem er fjölmennasti og mannskæðasti bardagi sem háður hefur verið á Íslandi. Samkvæmt Sturlungu má ætla að á annað þúsund manns hafi barist og a.m.k. hundrað manns fallið. Í Haugsnesi sem er stutt frá hringvegi hefur verið komið upp miklu minnismerki um bardagann, þar sem þeir sem féllu eru einkenndir með litlum krossi. Þetta er áhrifamikið verk sem vert er að skoða. Frá Haugsnesi er svo stuttur spölur í Varmahlíð.

Frá Varmahlíð að Miðfirði (Hvammstangi og Laugarbakki)

Áður en Skagafjörður er yfirgefinn er stuttur akstur eftir Hringveginum, að Víðimýrarkirkju. Hún er önnur vel varðveitt torfkirkja sem finna má í Skagafirði og Halldór Laxness vildi meina að væri eitt merkilegasta hús á Íslandi og ,,okkar Péturskirkja“ eins og hann orðaði það. Frá Víðmýri er haldið uppí Vatnsskarðið og liggur þjóðvegurinn framhjá Vatnshlíðarvatni þar uppi. Þegar halla tekur undir er ekið niður í Bólstaðarhlíðina og þar blasir við falleg fjárrétt sem gaman er að stoppa við. Þar er einnig gamalt félagsheimili, Húnaver, þar sem margur Íslendingurinn hefur dansað af sér skóna á ófáum sveitaböllunum. Þegar ekið er framhjá vegi á vinstri hönd sem liggur inn Blöndudal og þaðan suður Kjöl, er áin Blanda framundan meðfram þjóðveginum. Þaðan er stutt í þéttbýlið við Blönduós, þar sem finna má margvíslega þjónustu og þar er Heimilisiðnaðarsafnið staðsett. Eftir að ekið er frá Blönduósi er stutt í Vatnsdal, þar sem m.a. má finna náttúruvættið Kattarauga. Við minni Vatnsdals, á hægri hönd, fast við þjóðveginn, eru Þrístapar þar sem síðasta aftaka á Íslandi fór fram, þegar Friðrik og Agnes voru hálshöggvin á köldum janúardegi 1830. Nokkru eftir að ekið er frá Þrístöpum blasir við Borgarvirki, 177 metra há klettaborg á ásunum milli Vesturhóps og Víðidals. Borgarvirki er friðað vegna minja. Þar er hlaðinn grjótveggur og inni í virkinu eru rústir af tveimur skálum. Þaðan er ekið eftir þjóðveginum og fljótlega er afleggari til vinstri inn Víðidal þar sem hægt er að heimsækja Kolugljúfur. Norðan þjóðvegar er Vatnsnesið, skoðunarverð hringleið er um nesið, þar sem m.a. má sjá klettadranginn Hvítserk og stærstu sellátur landsins, ásamt miklu fuglalífi. Hér má segja að komið sé í náttstað. Hægt er að mæla með gistingu að Laugarbakka og Gaugsmýri ásamt Ferðaþjónustunni Dæli í Víðidal, þar sem einnig er tjaldstæði.

Dagur 6: Skagafjörður - Reykjavik

Frá Miðfirði (Laugarbakka) í Borgarfjörð

Úr miðfirði er ekið eftir hringveginum stuttan kafla í Hrútafjörð. Þegar í fjörðinn er komið, má sjá á hægri hönd, Byggðasafnið á Reykjum, þar sem m.a. má sjá stórt Hákarlaskip. Innst í Hrútafirði er áningastaðurinn Staðarskáli sem ágætt er að stoppa á áður en haldið er á Holtavörðuheiðina. Þegar svo komið er á háheiðina, getur í björtu veðri verið mjög víðsýnt bæði inn til landsins og suður í Borgarfjörð. Nú fer að halla undan niður í Borgarfjörð og fljótlega liggur hringvegurinn meðfram laxveiðiánni Norðurá. Fljótlega blasir við framundan hið keilulaga fjall Baula sem er úr líparíti, 934 metra há, og helsta kennileiti Borgarfjarðar. Fljótlega er síðan komið að Grábrók, eldgígaröð, þar sem Grábrók er stærst þriggja gíga, sem mynduðust fyrir um 3000 árum og hraunið sem þar er í kring er komið úr því gosi, Grábrókarhraun. Tilvalið er að fá sér göngutúr upp á gígbarminn eftir vel mörkuðum göngustíg. Frá toppnum sést vítt til allra átta, þar á meðal yfir á Hreðavatn á hægri hönd. Þar má finna margar skemmtilegar gönguleiðir í skóglendi við suðvesturenda vatnsins, þar sem heitir Jafnaskarðsskógur. Vinstra megin hringvegarins, rétt neðan við Grábrók er hægt að ganga niður að fossinum Glanna í Norðurá, - nettur og skemmtilegur foss þar sem einnig er laxastigi. Einnig blasir við háskólasamfélagið á Bifröst. Sagt er að fólk geti ekki lokið námi þaðan nema hafa klifið Baulu.

Áfram er haldið frá Grábrók í átt að Borgarnesi sem er um hálftíma leið. Fram til 1980 var Borgarnes frekar afskekkt, en hringvegurinn lá þá austan fjarðar og yfir fallega bogabrú yfir Hvítá sem enn er í noktun og er yfir 90 ára gömul. Árið 1980 varð Borgarnes partur af hringveginum þegar 500 metra löng brú var opnuð yfir til Borgarness og er nú lengsta brú landsins í notkun. Rétt áður en komið er í Borgarnes má finna útivistarsvæði Borgnesinga, skógræktarsvæðið Einkunnir, en beygt er inn að því á hægri hönd, stuttu áður en komið er að þéttbýlinu. Þar eru fallegar gönguleiðir og kjörinn staður fyrir nestisstopp. Þegar inn í Borgarnes er komið er margt sem vert er að skoða. Nefna má Bjössa róló, fallegu fjöruna neðan við og Landnámssetur Íslands, þar sem eru tvær sýningar. Annars vegar er landnámssagan rakin og hins vegar kynnast gestir Egilssögu, hvorutveggja í hljóðleiðsögn. Þar er einnig veitingastaður og minjagripaverslun. En Borgarfjörðurinn er m.a. sögusvið Egilssögu. Sundlaugin í Borgarnesi er afar fjölskylduvæn með heitum pottum, barnavaðlaug og vatnsrennibraut. Einnig má kíkja á gamla torfbæinn sem er á vinstri hönd skömmu eftir að ekið er framhjá verslunarkjarnanum á leið niður að höfn. Úr Borgarnesi er síðan klukkustundar akstur til Reykjavíkur, þegar farið er um Hvalfjarðargöng. Ef kosið er að fara frekar um Hvalfjörðinn er það um 42 km lengri leið. Smellið hér til að lesa meira um Borgarfjörð og Hvalfjörð þar sem þið finnið fullt af áhugaverðum stöðum til að skoða ef þið viljið lengja ferðina. Við mælum með að skoða ísgöngin á Langjökli en Into the Glacier / Arctic Adventures er með frábær tilboð í sumar. Ferðin fer frá Klaka grunnbúðum sem eru u.þ.b. hálftíma akstur frá Húsafelli, þetta er æðisleg upplifun sem enginn vill missa af og nú er frábær tími til að nýta tækifærið. Á leiðinni er síðan hægt að stoppa við Hraunfossa og Barnafoss eða fara í Kraumu náttúrulaugar.

Spennandi ferðir

Aðrar ferðalýsingar