One night only. Watch a film inside an ice cave | Check it out!

Ferðalýsing eftir Sigurð Hróarsson

Á Suðurlandi eru margir vinsælustu ferðamannastaðir landsins. Ræður því bæði nálægðin við höfuðborgarsvæðið og tign náttúrunnar. Má þar finna brot af öllu því besta sem Ísland hefur upp á að bjóða, Íslendingum jafnt sem útlendingum.

Fjöll og fossar. Flúðir, lækir, ár og fljót. Jarðhiti, laugar og hverir. Jöklar. Hraun og hellar. Ís í öllum sínum myndum. Sandar, auðn og gróðursæld. Sjór, strendur og fjörur. Stöðuvötn og tjarnir. Klettar og björg. Stuðlar, steinar, tún og engi. Kjarrlendi og skógar. Byggðir og bú. Búsæld og saga. Sögustaðir, kirkjur, söfn og setur. Dýralíf á láði, legi og lofti. Mannlíf. Afþreying, þjónusta, dægradvöl. Göngustígar. Fjallgöngur. Fjör. Ævintýri. Áskoranir. Árnesingar. Rangæingar. Skaftfellingar. Sköpunarverkið – í víðasta skilningi – í öllum sínum undurfagra skrúða.

Ferðalýsingin sem hér fer á eftir miðast við tveggja daga ferð frá Reykjavík að Jökulsárlóni og aftur til baka eftir hringveginum. Stiklað verður á stóru og víða bent á áhugaverða staði utan þjóðbrautar. Staði sem gjarnan rúmast ekki innan tímaramma tveggja daga. Ferðalöngum er vitaskuld í slálfsvald sett hvernig þeir deila áningarstöðum á dagana tvo. Helming eða svo á austurleið og hina á heimleið. Áherslan verður á náttúruna og landið utan þéttbýlisstaðanna. Öflug ferðaþjónusta og fjölbreytt afþreying er í boði í öllum kaupstöðum og þorpum Suðurlands. Hendi næst að afla sér þeirra upplýsinga. Í tveggja daga túr sem þessum gefst þó tæpast tími til að staldra lengi við í þéttbýli.

Reykjavik - Hveragerði

Austur fyrir fjall. Rauðhólar eru við bæjarmörkin. Litríkir gervigígar. Þeim var um áraraðir spillt mikið með efnistöku til vegagerðar og lagningu flugbrauta. Gígarnir eru nú friðaðir, enda bæði fallegir og áhugaverðir frá jarðfræðilegu sjónarmiði. Gervigígar næsta sjaldséðir utan Íslands. Þaðan liggur leiðin framhjá Lækjarbotnum og Tröllabörnum – sem einnig eru friðaðir gervigígar. Áfram yfir Sandskeið framhjá Bláfjallaafleggjara og Vífilsfelli. Fellið heitir eftir Vífli þeim sem sagður var þræll Ingólfs Arnarsonar en þágði síðar frelsi. Ásamt Karli þræli fann Vífill öndvegissúlur eiganda síns í flæðarmálinu við Arnarhvol og er því ábyrgur fyrir bæjarstæði Reykjavíkur. Í Svínahrauni er afleggjari að Hellisheiðarvirkjun og er þar merkileg sýning um starfsemina. Kambarnir eða Þrengslavegur? Skömmu eftir Hellisheiðarvirkjun liggur Þrengslavegur (39) á hægri hönd gegnum miklar mosavaxnar hraunbreiður um fagurt landslag til Ölfuss og Þorlákshafnar. Á þeirri leið, eftir aðeins um 10 mínútna akstur, er að finna einn fallegasta, lengsta og vinsælasta hraunhelli landsins, Raufarhólshelli í Leitahrauni. Þar er þjónustuver og boðið upp á ferðir í hellinn með faglegri leiðsögn. Er það einstök upplifun, falleg og fræðandi, ævintýri líkust. Við mælum með að að kíkja við í hellinum ef tími gefst, hvort sem að það er á leið úr bænum, aftur í bæinn eða gera sér ferð úr Reykjavik.

Gegnum Hveradali er ekið upp á Kristnitökuhraun og Hellisheiði. Sagan segir að hraunið hafi runnið árið eitt þúsund þegar kristnir menn og heiðnir elduðu grátt silfur á þingi og blönduðu „yfirnáttúrulegu“ gosinu í deilurnar uns Snorri Goði beitti jarðfræðilegum rökum, fyrstur Íslendinga svo vitað sé, til að steypa þeirri forneskju af stalli. Niður Kambana liggur vegurinn til Ölfuss og Hveragerðis. Útskot er á Kambabrún með víðu útsýni, allt til Eyjafjallajökuls og Vestmannaeyja. Hveragerði er fallegur bær; heitur, grænn og heilnæmur. Reykjadalur er undraland ofan Hveragerðis. Þangað liggur göngustígur upp úr dalbotninum framhjá ótal hverum og laugum að vinsælum náttúrulegum baðstað í heitum læk. Gangan að baðstaðnum er 3 – 4 kílómetrar og vel á fótinn, tekur um klukkustund

Hveragerði – Hvolsvöllur

Undir Ingólfsfjalli er Kögunarhóll. Þar má sjá fjölda hvítra krossa við veginn til minningar um þá sem látist hafa í umferðarslysum á veginum milli Selfoss og Reykjavíkur. Uppi á Ingólfsfjalli er hóll. Þjóðsaga hermir að þar sé Ingólfur Arnarsson heygður. Til vinstri liggur Biskupstungnabraut (35) að Sogsbrú í Grímsnes og áfram til uppsveita, en við ökum hringveginn yfir Ölfusárbú á Selfoss. Ölfusá er mikið vatnsfall, myndast þar þar sem Sogið og Hvítá koma saman skammt ofan Selfoss. Frá upptökum Hvítár að Ölfursárósum er áin 185 km löng. Nafngiftin Ölfus er óleyst ráðgáta. Selfoss í sveitarfélaginu Árborg er stærsti þéttbýliskjarni Suðurlands. Þar er öflug ferðaþjónusta og fjölmargt að sjá. Kirkjustaðurinn Laugardælir er við bæjarmörkin. Þar er gröf skákmeistarans Bobby Fisher. Við Þjórsárbrú er Urriðafoss. Tilkomumikill þótt ekki sé hann hár, enda Þjórsá ein vatnsmesta á landsins og sú lengsta, um 230 km. Handan Þjórsár er Rangárþing. Við Ytri-Rangá er þorpið Hella og bærinn Ægissíða. Þar eru merkilegir manngerðir hellar. Væntanlega frá landnámsöld. Ýmsir vilja meina að þeir séu enn eldri og að þar hafi búið kristnir Írar, Papar, fyrir landnám norrænna manna. Eru það getgátur. Hellarnir eru í einkaeigu og aðgengi ekki heimilt nema með leyfi ábúenda.

Af Rangárvöllum blasir Hekla við í norð-austur og við Vegamót liggur vegur (26) upp í Landsveit og Landmannalaugar, að Fjallabaki og norður á Sprengisand. Hekla er fjalla fegurst og í hópi merkustu eldfjalla heimsins, 1491 metri að hæð. Um aldir var það trú manna að Hekla væri vindauga Helvítis. Hekla er virk eldstöð og má ekki af henni líta – hún gæti gosið núna! Á Rangárvöllum er höfuðbólið Oddi, steinsnar frá þjóðbraut. Þar bjó Sæmundur Sigfússon fróði (1056 – 1133), lærðasti Íslendingur sinnar tíðar og trúlega forsprakki sagnaritunar á Íslandi. Sögusvið Njálu er að stórum hluta í Rangárþingi eystra. Frá Hvolsvelli er vegur (261) upp í Fljótshlíð. Þar á bænum Hlíðarenda bjó kappinn Gunnar Hámundarson á söguöld ásamt konu sinni Hallgerði Höskuldsdóttur langbrók. Þar var Gunnar felldur og heygður á staðnum. Í Landeyjum er býlið Bergþórshvoll. Þar bjuggu hjónin Njáll og Bergþóra ásamt börnum sínum sex til ársins 1011 er bærinn var brenndur með þeim hjónum, sonum þeirra þremur og sex öðrum. Í Fjallinu Þríhyrningi upp af Fljótshlíð földu sig Flosi Þórðarson foringi brennumanna og flokkur hans allur á leið sinni að og frá brennu. Frá þessum örlagaþrungnu atburðum segir í Njálu – Brennu-Njálssögu. Er sú bók mikið listaverk og tvímælalaust eitt af öndvegisritum heimsbókmenntanna. Þjóðargersemi. Á Hvolsvelli er bæði Njálusetur og eldfjallasetur.

Hvolsvöllur - Vík

Eyjafjallajökull blasir við sjónum þegar ekið er frá Hvolsvelli. Tígulegt eldfjall sem öðlaðist heimsfrægð þegar hann gaus með miklu öskufalli vorið 2010.

Seljalandsfoss og Gljúfrabúi

Skömmu áður en komið er að Markarfljóti liggur vegur (250) upp með fljótinu að stapanum Stóru-Dímon og þaðan að Múlakoti í Fljótshlíð. Í öndverða átt er Landeyjarhafnarvegur (254) niður með fljótinu. Frá höfninni siglir Herjólfur til Vestmannaeyja. Handan Markarfljótsbrúar liggur vegur (249) að Seljalandsfossi, Gljúfrabúa, Hamragörðum og áfram inn í Þórsmörk.

Seljalandsfoss er einn glæsilegasti foss landsins. Skyldumæting á leið um héraðið. Fossinn er um 65 metra hár og ákaflega formfagur. Að sumri og þegar færð leyfir að vetri er hægt að ganga á bak við fossinn og er það einstök upplifun. Ætti enginn að láta það fram hjá sér fara og gildir þá hið fornkveðna að enginn er verri þótt hann vökni. Ótal lækjarsprænur fyssast niður hlíðina á milli Seljalandsfoss og Hamragarða og liggur þar greiðfær göngustígur. Í földu gili við Hamragarða er fossinn Gljúfrabúi. Ævintýralegt vatnsfall. Einungis er hægt að komast að fossinum með því að stikla á steinum ofan í ánni gegnum þrönga kletttaskoru og þannig inn í hvelfinguna þar sem fossinn fellur. Er þar töfraveröld.

Undir Eyjafjöllum

Paradísarhellir er skúti í fjallsrótinni milli Heimalands og Fitjar. Þangað liggur merkt göngleið. Til að komast í hellinn þarf að vega sig örfáa metra upp klett með reipi eða keðju sem þar er fest. Öllum fært. Í hellinum hafðist við í nokkur ár á 16. öld smalapilturinn Hjalti Magnússon ástmaður Önnu á Stóru-Borg þegar siðavandur bróðir hennar Páll lögmaður Vigfússon vildi handtaka Hjalta og jafnvel taka af lífi. Um Önnu skrifaði Jón Trausti samnefnda skáldsögu. Seljavallalaug er gömul yfirgefin sundlaug í fjallshlíð við árfarveginn upp frá samnefndum bæ. Er þá ekið upp vegarspotta við eystri brúarsporða Svaðbælisár framhjá Seljavöllum að ómerktu bílastæði og gengið þaðan að lauginni. Þar má baða sig en engin þjónusta í boði.

Rútshellir er í móbergshöfða skammt austan við bæinn Hrútafell. Nýuppgerður og aðgengilegur. Er það trú margra að hellirinn sé elstu manngerðu hýbýli landsins. Styðst sú trú við (umdeildar) rannsóknir sem benda til að þar hafi verið virki af ævafornri gerð. Hellirinn er 15 metra langur, hátt til lofts og vítt til veggja. Ýmsar sögur fara af Rúti þeim eða Hrúti sem hellirinn er kenndur við, er hann þar ýmist ránsmaður, höfðingi, eða risi. Hellirinn er friðlýstur. Drangurinn er stakur klettur á túninu við bæinn Drangshlíð. Sérkennileg náttúrusmíð úr móbergi. Sagan segir að Grettir sterki Ásmundarson hafi hrundið klettinum úr Hrútafelli og eftir standi skarðið í hlíðinni fyrir ofan bæinn. Undir klettinum eru hellar og skútar og byggt hefur verið fyrir framin þá. Þar var kvikmyndin „Hrafinn flýgur“ mynduð að hluta. Drangurinn er friðlýstur.

Skógafoss

Tvímælalaust einn fegursti foss landsins, um 60 metra hár. Göngustígur liggur upp bratta brekkuna meðfram fossinum að útsýnispalli við fossbrún. Stígurinn liggur síðan áfram upp með Skógaá og þaðan um Fimmvörðuháls til Þórsmerkur. Mikil og ströng ganga, 7 – 10 klst.

Þrasi Þórólfsson var landnámsmaður að Skógum. Sagan segir að hann hafi fólgið gullkistu í helli bak við fossinn. Þegar sólin skín á Skógafoss glitrar gjarnan í gull Þrasa gegnum vatnsúðann. Hringur gullkistunnar fannst fyrir löngu og er nú meðal dýrgripa Skógasafns. Að Kvernufossi í ánni Kvernu er er um 20 mínútna gangur frá bílastæðinu á Skógum. Gengt er á bak við fossinn.

Sunnan jökla Suðurlands

Rétt austan Jökulsár á Sólheimasandi – einnig þekkt sem Fúlilækur – er vegarspotti (221) upp að Sólheimajökli, þekktasta skriðjökli Mýrdalsjökuls. Þar býður Arctic Adventures upp á ævintýralegar jökulgöngur og jökulklif. Göngurnar taka nokkrar klukkustundir og henta því tæpast í tveggja daga ferð að Jökulsárlóni en eru ógleymanleg lífsreynsla. Frá bílastæðinu að jökulsporði er hins vegar viðráðanlega ganga og þar er ægifagurt. Óvíða á landinu sjást betur merki um rýrnum jökla en hér. Sporður Sólheimajökuls hefur hopað um rúma 400 metra á síðustu 10 árum. Á Sólheimasandi er flugvélaflak sem ýmsum finnst áhugavert. Gangan niður sandinn frá bílastæðinu við veginn að flakinu og aftur til baka tekur a.m.k. tvær klst.

Í Mýrdalnum er hægt að aka lykkju af þjóðbrautinni umhverfis fjallið Pétursey. Upp af Mýrdalnum rís Mýrdalsjökull. Djúpt undir jökulmassanum sefur eldstöðin Katla, ein stærsta og virkasta megineldstöð landsins. Katla gaus síðast 1918 og gæti rumskað hvenær sem er. Í gosinu 1918 kom mikið hlaup niður Mýrdalssand austan Múlakvíslar.

Dyrhólaey, Reynisfjara og Vík

Dyrhólaey er mikill og fagur 120 metra hár stapi sem gengur þverhníptur í sjó fram. Gegnum ysta tangann er mikið gat og dregur „eyjan“ af því nafn sitt. Vegurinn að Dyrhólaey (218) er um 6 km langur. Mikið fuglalíf er í eynni og nokkur lundabyggð. Dyrhólaey er friðlýst og umferð um hana takmörkuð á varptíma. Á bænum Dyrhóli bjó um tíma Kári Sölmundarson samkvæmt Njálu. Hann einn slapp úr brennunni og hefndi grimmilega þeirra sem þar brunnu.

Reynisfjöru liggur vegur (216) undir Reynisfjalli. Þar eru gullfallegir stuðlabergsklettar og myndrænir hellisskútar. Reynisdrangar rísa brattir og tígulegir upp úr sjónum fram af fjallinu. Að þeim er einnig fagurt útsýni í Vík handan fjallsins. Fjölskrúðugt fuglalíf er í bjarginu við Reynisfjöru og lundi á varptíma. Reynisfjara er þekkt fyrir mikinn öldugang og getur brimið þar verið lífshættulegt þegar hvassar stóröldur hvolfa sér óvænt langt upp í fjöruna. Gríðarlega mikilvægt að gæta vel að sér og fara varlega. Vík í Mýrdal er miðja vegu milli Reykjavíkur og Jökulsárlóns. Vinsæll áningarstaður. Frá kirkjunni í Vík er tilkomumikið útsýni. Í Kötlujökli hefur um hríð verið ástsæll íshellir en þangað er torfært. Frá Vík er boðið upp á ferðir í hellinn – svo lengi sem hann endist. Íshellar koma og fara.

Austur yfir sanda

Við Kerlingardal er vegur (214) upp í Þakgil. Mikil náttúruperla um 14 km frá þjóðveginum. Mýrdalssandur er yfir 700 ferkílómetra eyðimörk sem Landgræðsla ríkisins hefur grætt að hluta meðfram veginum. Þar, sem víðar á Suðurlandi, eru miklar lúpínubreiður. Hjörleifshöfði eða e. Yoda Cave er á Mýrdalssandi. Að höfðanum liggur vegaslóði, tæpast fólksbílafær. Höfðinn heitir eftir Hörleifi Hróðmarssyni fósturbróður Ingólfs Arnarsonar. Segir sagan að þar hafi Hjörleifur verið veginn. Mikil Fýlabyggð er í höfðanum. Niður af Hjörleifshöfða er Kötlutangi, syðsti oddi landsins.

Við Dýralæki er vin í eyðimörkinni og vinsælt að staldra við um stund. Við Skálm er afleggjari (211) niður í Álftaver og Þykkvabæjarklaustur. Í Álftaveri eru myndarlegir gervigígar sem mynduðust í Eldgjárgosinu 934-940 þegar hraun rann þar yfir votlendi. Gervigígar myndast þegar glóandi hraunkvika kemst í samband við vatnsósa undirlag og veldur hvellsuðu á vatninu. Álftaversgígar eru friðlýstir. Laufskálavarða er malarhryggur við veginn með fjöldamörgum litlum hraunvörðum. Löngum var það siður ferðamanna að hlaða þar vörðu sér til happs á ferð um sandinn. Við Laufskálavörðu liggur Hrífunesvegur (209) upp í Skaftártungu og þaðan fjallvegir áfram upp á Fjallabakssleiðirnar.

Eldhraun og Móðuharðindi

Skaftáreldaraun er mikil mosagróin hraunbreiða austan Kúðafljóts. Hraunið kom upp í Skaftáreldum 1783-84 úr gossprungunni Lakagígum. Hraunið er um 570 ferkílómetrar að flatarmáli og hraunmagnið talið 12-14 rúmkílómetrar. Annað af tveimur stærstu hraungosum sem runnið hafa á jörðinni á sögulegum tíma. Með hrauninu kom upp gríðarlegt magn af ösku og þykkri móðu eða eiturgufu sem lá yfir landinu öllu mánuðum saman með skelfilegum afleiðingum. Móðuharðindin eru þær hörmungar nefndar og sú hungursneyð sem þessar náttúruhamfarir ollu. Er talið að um 75% alls búfjár landsins hafi fallið og fimmti hver maður eða nærri 10.000. Hugsanlega má rekja uppskerubrest sem víða varð í Evrópu sumarið 1783 til gossins og jafnvel aðdragandann að frönsku byltingunni. Merkt bílastæði með fróðlegum upplýsingaskiltum um hraunið, gosið og afleiðingar þess, er að finna skömmu áður en ekið er út úr hraunbreiðunni að austan. Þar liggur gönguslóði spölkorn inn í hraunið að manngerðum útsýnispalli. Yfir sígræna hraunbreiðuna er útsýni allt til Öræfajökuls í austri og Mýrdalsjökuls í vestri.

Fjaðrárgljúfur

Stórbrotið um 100 metra djúpt og tveggja kílómetra langt veggbratt gljúfur árinnar Fjaðrár sem fellur í Skaftá skammt innan við Hunkubakka. Frá þjóðvegi að bílastæðinu við enda gljúfursins er örfárra mínútna akstur. Frá stæðinu liggur merktur göngustígur upp með gilinu og nokkrir manngerðir útsýnispallar eru á gljúfurbarminum. Í gljúfrinu eru fossar hér og hvar. Landslag þarna er hrikalegt og myndrænt. Heimsóknin í heild tekur ekki undir einni klukkustund.

Kirkjubæjarklaustur

Við Kirkjubæjarklaustur má una sér daginn langan þótt varla gefist til þess tími í tveggja daga ferð eins og þeirri sem hér er lagt upp með. Velja má um fjölda gönguleiða um fagurt nágrennið. Meðal helstu aðdráttarafla má nefna Kirkjugólfið, Systrafoss, Systrastapa, Systravatn, Eldmessutanga og Stjórnarfoss skammt við veginn (203) upp að Geirlandi. Systranöfnin má rekja til þess tíma er nunnuklaustur var á staðnum 1186-1542. Jón Steingrímsson eldklerkur var prestur á Klaustri í Skaftáreldum og trú margra að hann hafi stöðvað hraunrennslið í árfarveginum við Systrastapa með eldmessu sinni 20. júlí 1783. Kapella er á Klaustri til minningar um séra Jón og Skaftárstofa, gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs.

Austur að sandi

Foss á Síðu er fallegur og myndrænn þar sem hann fellur um 30 metra niður hamrana fyrir ofan samnefndan bæ. Hvorki er bílastæði við fossinn né opin gönguleið að honum. Dverghamrar eru neðan vegar litlu austar. Sérkennilegir og fallega formaðir stuðlabergshamrar. Friðlýst náttúruvætti. Fossálar eru frískleg bergvatnsá sem fellur í flúðum rétt við veginn og vinsælt myndefni. Bílastæði er sunnan vegar en flúðirnar norðan svo vert er að fara með gát. Orustuhóll er 90 metra hár móbergsklettur við veginn. Af toppi hans er afar víðsýnt. Brunahraun blasir þar við, eystri grein Skaftáreldahrauns. Núpsstaður er síðasti bær (eða fyrsti, eftir atvikum) vestan Skeiðarársands. Þar er gamalt bænahús og merkilegir torfbæir. Óheimilt er að fara heim að Núpsstað og njóta þeirrar merku menningararfleiðar sem þar er. Synd. Lómagnúpur (767 m) er hátt og bratt fjall, eitt hæsta standberg á Íslandi. Í fjallinu býr jötunninn Járngrímur sem birtist Flosa á Svínafelli í draumi áður en hann reið með flokk sinn til Njálsbrennu og varaði Flosa við afleiðingum brennunnar. Hægt er að klífa gnúpinn að austan upp Hvirfildal og útsýni af toppi er allt til Grímsvatna. Tekur það hálfan dag eða heilan. Frá vegi má ganga spölkorn inn með fjallinu að lítilli tjörn og er þar mikið fuglalíf.

Austan Lómagnúps tekur við ríki Vatnajökuls í allri sinni dýrð. Skeiðarársandur er mikið landflæmi framundan Skeiðarárjökli og allt til sjávar. 20 – 30 kílómetrar eru milli byggða vestan og austan sands. Virkasta eldstöð landsins, Grímsvötn, er langt norður í Vatnajökli og feiknarleg flóð koma undan jökli niður sandinn þegar þar gýs. Á góðum degi er gaman að stansa á útskotum við veginn yfir sandinn og njóta töfranna sem við blasa. Vinsælt er að æja á bílastæðinu rétt austan nýju brúarinnar yfir Morsá. Þar er feikifagurt útsýni til Skaftafells og Öræfajökuls og fjöldi upplýsingaskilta með fróðleik um það sem fyrir augu ber.

Öræfi

Vegarspotti liggur heim að gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs í Skaftafelli. Í tveggja daga ferð gefst varla tími til annars en að njóta þjónustunnar þar um stund, og ef til vill ganga upp á heiðina að Svartafossi eða inn með fjallsrótinni að Skaftafellsjökli. Ganga frá þjónustumiðstöðinni að öðrum hvorum staðnum og sömu leið til baka tekur a.m.k. 45 mínútur. Svartifoss er umkringdur dökku stuðlabergi. Tuttugu metra hár og ægifagur. Með því að dvelja hér daglangt eða lengur má t.d. ganga upp á Kristínartinda eða inn í Morsárdal og Bæjarstaðarskóg. Fjöldi leiða i boði. Frá Skaftafelli er dýrðlegt útsýni að Öræfajökli. Þar situr Hvannadalshnjúkur á toppinum, hæstur íslenskra fjalla, 2110 metrar. Öræfajökull er eldfjall og hefur gosið tvisvar á sögulegum tíma, 1362 og 1727. Fyrra gosið var ægilegt sprengigos og lagði í eyði alla byggð undir jöklinum.

Illfær vegur liggur rétt austan Skaftafellsár að sporði Svínafellsjökuls við Hafrafell. Þar við lónið og upp göngustíginn í hlíðinni með jöklinum er undursamleg náttúrufegurð. Önnur slóð liggur frá hringveginum að Svínafellsjökli rétt við Freysnes. Örstutt er að aka heim að eyðibýlinu Sandfelli. Þar var áður kirkjustaður en kirkjugarðurinn er nú eina mannvirkið sem eftir stendur. Þaðan liggur vinsæl gönguleið á Öræfajökul. Þangað fer enginn nema í fylgd þaulvanra leiðsögumanna. Á Hofi finnið þið Adventure Hótel Hof, hótel á vegum Arctic Adventures. Þar er einnig gömul torfkirkja. Frá Fagurhólsmýri er vegarslóði niður að Ingólfshöfða. Eyðibýlið Kvísker er austasti bær í Öræfasveit. Þangað er fagurt heim að líta.

Fjallsárlón er vinsæll viðkomustaður. Þar er fjölbreytt ferðaþjónusta. Frá bílastæðinu við nýja veitingahúsið er stutt ganga að lóninu. Þar fljóta gjarnan ísjakar og útsýni tignarlegt.

Jökulsárlón og Fellsfjara

Jökulsárlón við Breiðamerkurjökul er einn dáðasti ferðamannastaður Íslands. Ekki að ósekju. Þar er ægifagurt og engu líkt. Lónið er dýpsta stöðuvatn landsins, um 250 metra djúpt. Myndað af ógnarkröftum Breiðamerkurjökuls þar sem hann gróf sig niður í sandinn. Lónið stækkar sífellt frá ári til árs eftir því sem jökullinn hopar. Af jaðri jökulsins brotnar stöðugt ís og miklir jakar fljóta því ávallt á lóninu. Útlit lónsins og ásýnd breytist þó frá degi til dags og alltaf kemur eitthvað á óvart.

Úr lóninu flæðir stutt en öflug á til sjávar, Jökulsá á Breiðamerkursandi. Fönguleg hengibrú liggur yfir ána þar sem hún fellur úr lóninu. Áin ber með sér ís og ísjaka til sjávar og brýtur þá niður jafnharðan. Öldurnar úti fyrir ströndu bera síðan gjarnan hluta af ísnum upp í fjöruna beggja vegna áróssins. Heitir þar Eystri- og Vestri-Fellsfjara. Betur þekkt sem Demantafjaran – hin heimsfræga Diamond Beach. Oftast er ís í fjörunni en ekki hægt að ganga að honum vísum. Allt er hér síbreytilegt. Við lónið er fjölbreytt þjónusta. Bátsferðir að sumri og torfæruferðir að íshellum við jökulsporðinn að vetri.

Leiðarendi og heimleið

Við Jökulsárlón erum við komin á leiðarenda. Héðan höldum við til baka sömu leið. Vafalaust náðum við ekki að skoða nema hluta af verðugum viðkomustöðum á austurleiðinni og því nóg að gera á heimleið. Sjálfsagt er líka að benda á fjölda veitinga- og gististaða austan lóns, í Suðursveitinni og áfram til Hafnar. Milli Reykjavíkur og Jökulsárlóns eru tæpir 380 kílómetrar eftir hringveginum stystu leið. Það er næstum fimm tíma akstur þótt hvergi sé stansað. Mikilvægt að skipuleggja ferðina vel og skammta tímann á hverjum stað. Góða ferð!

Spennandi ferðir

Aðrar ferðalýsingar