One night only. Watch a film inside an ice cave | Check it out!

Ferðalýsing eftir Hjalta Björnsson

Gullni Hringurinn eða Gullhringurinn en svo er hringleið um Þingvelli Geysi og Gullfoss og til baka um Grímsnes nefnd. Þaðan er farið yfir Hellisheiði og aftur til Reykjavíkur. Nafnið vísar að hluta til í Gullfoss en ekki síður að þá hefur þessi dagsferð verið hálfgerð gullnáma fyrir ferðaþjónustuna og ekki skrýtið því í þessari dagsferð er líklega hægt að sjá brot af því besta sem landið hefur upp á að bjóða. Við ætlum að aka hringinn réttsælis en að sjálfsögðu er hægt að fara hann rangsælis líka.

Reykjavik - Þingvellir

Við hefjum ferðina í Reykjavík og ætlum að fara Nesjavallaleið sem er afar falleg og grösug leið og vandfundin betri aðkoma að Þingvöllum sérstaklega að morgni þegar sólin er að koma upp í austri. Við ökum suðurlandsveg út úr bænum en beigjum inn á Hafravatnsleið #431 við Rauðhóla og áfram Nesjavallaleið #435. Strax þar tekur við gróið heiðarland sem er býsna leitótt og að hluta til nýtt sem beitarland sauðfjarbænda sem hafa aðstöðu í Fjárborg sem er rétt norðaustan Grafarholts. Við nálgumst Hengilinn og ökum þá inn í Dyradal þar sem vegurinn slöngvast gegnum rofna elsdstöðina. Fyrir ofan Nesjavelli er góður útsýnisstaður og gott bílastæði þar sem glæsileiki Þingvalla nýtur sýn til fulls. Þessi staður er eftirlæti ljósmyndara og fjallsalur sá sem umlykur vatnið er einstakur. Þarna má sjá m.a. Búrfell, Botnssúlur, Ármannsfell, Skjaldbreiður, Hrafnabjörg og fleiri fjöll. Eftir að hafa dvalið þarna um stund og gengið um svæðið því þarna eru skemmtilegar gönguleiðir sem eru vel merktar þá er haldið áfram veg #360 sem liggur meðfram vatninu og inn á Þingvallaleið #36 og þann veg tökum við og heimsækjum Hakið.

Þingvellir

Hakið sem er gestastofa þjóðgarðsins, þar er afar áhugaverð sýning, Hjarta lands og þjóðar. Tilvalið er ef hópur ferðast saman að einhverjir gangi niður Almannagjá og einn færi bílinn niður á neðri bílastæðin B2 og þaðan er gengið út að Öxarárfossi. Frá bílastæðinu er tilvalið að ganga hring út að Nikulásargjá og að gömlu kirkjunni en þar við hlið er þjóðargrafreiturinn sem aldrei varð.

Eitt af því sem hægt er að gera á Þingvöllum er að Snorkla í Silfru með Arctic. Það er í raun eitthvað sem allir ættu að prófa. Að fljóta um í tærasta vatni í heimi og horfa tugi metra niður í vatnið. Þeir sem prófa segja að fátt hafi haft meiri áhrif á þá og eiga ekki orð til að lýsa upplifuninni! Þú snorklar í þurrgalla þannig að þetta er þægileg upplifun, þú ert þurr og þér er alls ekki kalt. Allir geta snorklað. Það þarf engin réttindi til að snorkla.

Þjóðgarðurinn er heill heimur út af fyrir sig og er minnsti og elsti þjóðgarður okkar. Það er ekki ætlun okkar að lýsa öllu sem þar er að sjá en benda á gestastofuna. Fyrir utan Almannagjá, Lögberg, Öxará, Drekkingarhyl, Brennugjá, kirkjuna sem er gaman og fróðlegt að sjá þá má líka ganga vel merkta slóða út að rústum gamalla býla sem þarna voru og eru þær helstu: Arnarfell var hjáleiga frá Þingvöllum og var góð veiðijörð. Enn þá sést móa fyrir grjótgarði, sem var hlaðinn til að girða fellið af. Árið 1934 fékk Matthías Einarsson, læknir, erfðafestuábúð þar og flutti til sín hreindýr frá Austurlandi en þau drápust öll. Böðvarshóll er hóll austan Gjábakkastígs upp hraunið frá Vellankötlu. Hrauntún var sunnan Sleðaáss. Óglöggt sést til rústa Litla-Hrauntúns austur af Víðivöllum og Stóragili í Ármannsfelli. Skógarkot. Greinilegar rústir þessa býlis sjást undir Sjónarhóli austan Þingvallabæjarins. Stígur liggur þangað úr Vallakrók hjá Furulundi og gamli vegurinn yfir hraunið lá sunnan túns Skógarkots. Þarna var búið til 1936. Vatnskot stóð utan við Vellankötlu á vatnsbakkanum í landþrengslum. Ábúendur lifðu aðallega af veiði í vatninu. Þórhallastaðir. Rústir þessa bæjar eru undir Ölkofrahóli, suðaustan Skógarkots. Þar er brunnur og smátún. Ölkofri seldi þingheimi bjór á sínum tíma og brenndi Goðaskóg.

Lífríki vatnsins er fjölbreytt, margar tegundir fiska og fugla lifa í og við vatnið og á vorin og sumrin má sjá veiðimenn og fuglaáhugfólk á vappi meðfram ströndinni. Víða eru útskot og bílastæði við vatnið en við höldum áfram yfir Lyngdalsheiðina #365 og stoppum næst við Laugarvatnshelli en þar bjó fólk fyrir um 100 árum. Hellirinn hefur verið endurgerður í þeirri mynd sem hann var um 1918 og vel þess virði að koma þar við.

Laugarvatn

Við höldum áfram yfir heiðina og komum næst að Laugarvatni og þar er margt að sjá og alveg hægt að eyða heilum degi. Laugarvatn er þjónustustaður fyrir þá sem búa þar í nágreninu en líka fyrir gríðarlega sumarhúsabyggð sem er þar. Á Laugarvatni er hjólhýsaþorp sennilega hið stærsta sinnar tegundar á Íslandi. Skólahald er á Laugarvatni og ML menntaskólinn og lengi vel var þar virðulegur húsmæðraskóli en í dag eru þar öll skólastig frá leikskóla upp í háskóla. Göngur um skóginn fyrir ofan Laugarvatn, Fontana náttúruböðin, Vígðalaug sem Guðmundur Góði vígði og þar eigum við að þvo okkur um augun. Vatnið í lauginni er talið allra meina bót, Líkasteinar, Héraðsskólinn og margt annað er meðal þess sem hægt er að skoða á Laugarvatni.

Við höldum áfram veg #37 og næst gætum við stoppað á bænum Efsta Dal en þar er hægt að fá heimagerðann ís og einnig er þar ágætur veitingastaður. Þaðan liggur leiðin að Brúará og er bílastæði austur af Brúará og gönguleið upp að Brúarfossi, ca 30 mín gangur að fossinum sem er falleg flúð. Þarna var konungsvegurinn og má enn sjá hluta hans. Brúaráin geymir stóra og fallega bleikju enda köld á sem er kjörlendi bleikjunnar.

Geysir

Við höldum áfram og næsti viðkomustaður okkar er Geysir stærsti goshver heims. Án efa þekktasti goshver heims, enda er nafn hans notað sem heiti á hverum í ensku. Til eru heimildir um Geysi allt frá 13 öld, Á Geysisssvæðinu er fjöldi hvera, sá vinsælasti er Strokkur sem gýs á 5-10 mín fresti allt árið. Þjónusta er mikil á svæðinu, veitingar og verslanir.

Gullfoss

Við höldum áfram að Gullfossi sem er einstakur foss í Hvítá í Árnessýslu og vandfundinn fjölsóttari staður á Íslandi. Vegleg uppbygging á svæðinu gerir öllum mögulegt að skoða fossinn frá ýmsum sjónarhornum. Við fossinn er mikil þjónusta. Gullfoss er í raun tveir fossar, efri fossinn er 11 metrar og neðri fossinn 20 metrar.

Sigríður Tómasdóttir var fædd í Brattholti 1871, bærinn var þá afskekktur en þangað komu þó gjarnan ferðamenn. Sigríður fylgdi of ferðamönnum að fossinum og lagði ásamt systrum sínum fyrsta stíginn að fossinum. Þegar menn fóru að sækjast eftir yfirráðum fallvatna til virkjanaframkvæmda um aldamótin 1900 háði Sigríður harða baráttu gegn því að Gullfoss yrði virkjaður. Minnisvarði er um þessa merku konu við fossinn.

Ef tími er til getur verið gaman að fara inn í skóginn í Haukadal. Haukadalsskógur er einn stærsti þjóðskógur Suðurlands og sá sem mest hefur verið gróðursett í af þjóðskógum Íslands. Aðstaða til útivistar er góð. Meðal annars er sérhannaður stígur fyrir hjólastóla í skóginum. Ekið er upp Biskupstungnabraut að Geysi, fram hjá hótelinu og beygt til vinstri upp með hverasvæðinu að austanverðu. Norður af bílaplani sem þar er liggur malarvegur að Haukadalsskógi og er leiðin inn að kirkju rúmur kílómetri. Hægt er að keyra um hluta þessa ræktaða skógar sem teygir sig langleiðina upp á Haukadalsheiði, eitthvert víðáttumesta landgræðslusvæði landsins. Frá Haukadal liggur sæmilegur vegur upp á Haukadalsheiði á Hlöðufellsveg F338 (fjallvegur). Þaðan skiptast leiðir, á hægri hönd á Kjalveg en til vinstri á Kaldadalsveg. Aðstaða er til að grilla í stóru grillhúsi, Kristian Kirk húsinu, í jaðri skógarins. Salernisaðstaða er við Kristian Kirk húsið.

Frá Gullfossi eru ferðir með Arctic Adventures inn á Langjökul þar sem hægt er að komast í vélsleðaferðir og sannarlega hægt að mæla með því ef þið eruð að leita að adrenalínupplifun! Ferð okkar liggur nú niður að Drumbodsstöðum þar sem flúðasiglingar eru í boði. Siglingin er í Hvítá of fer um Brúarhlöð sem eru falleg gljúfur sem vert er að skoða hvort sem farið er í siglingu eða ekki. Farinn er vegur #35 frá Gullfossi til baka um þrjá km og beigt til vinstri inn á veg #30. Eftir Drumboddsstaði getu við farið niður Skeiðaveg sem kemur inn á þjóveg #1 austan við Selfoss eða farið og heimsótt Sólheima, Skálholt og Reykholt þar sem Friðheimar eru. Næst liggur leið okkar í Skálholt en saga Skálholts er jafn löng landnámi Íslands. Skálholt varð biskupsstóll árið 1056 og hér var vagga æðri menntunar um aldir og stjórnsetur Íslands. Sennilega er enginn staður eins samofinn sögu okkar og Skálholt og má segja að maður finni það þegar gengið er um þessar helgu slóðir.

Friðheimar er næsti áningarstaður en þar eru ræktaðir tómatar allan ársins hring í raflýstum gróðurhúsum, þrátt fyrir langan og dimman vetur. Fjölskyldan tekur á móti gestum, sýnir þeim hvernig tómataræktunin gengur fyrir sig – og gefur þeim að smakka á afurðunum. Nú geta gestirnir líka tekið með sér heim matarminjagripi úr tómötum og gúrkum. Í Friðheimum er einnig stunduð hrossarækt og ferðamönnum boðið upp á hestasýningu þar sem sýndar eru gangtegundir Íslenska hestsins.

Ef vilji er til þá er afar fallegur foss sem vert er að skoða, Faxi í Tungufljóti og þar er laxastigi sem er nokkuð áberandi. Gaman getur verið að dvelja við fossinn nokkrum dögum eftir stórstreymi þega lax er að ganga, Oft má sjá laxinn reyna að stökkva fossinn en fæstum tekst það. Reyna þeir of nokkru sinnum þar til þeir gefast upp og fara stigann. Að sjálfsögðu er margt annað sem hægt er að sjá og gera á þessari leið. Dæmi um skemmtilegan áningarstað eru Flúðir þar sem Gamla laugin (e. Secret Lagoon) er, sveppaveitingastaður með sveppaís og Eþíópíski veitingastaðurinn.

Sólheimar

Sólheimar er sjálfbært samfélag í Grímsnesi þar sem rúmlega 100 einstaklingar búa og starfa saman. Byggðahverfið Sólheimar leggur áherslu á ræktun manns og náttúru. Rekin er félagsþjónusta á Sólheimum þar sem einstaklingum með fjölbreyttan bakgrunn er veitt tækifæri til atvinnu og starfsþjálfunar, búsetu, félags- og menningarstarfs. Fjölbreytt starfsemi fer fram á Sólheimum svo sem rekstur skógræktar- og garðyrkjustöðva sem báðar stunda lífræna ræktun. Verslun og listhús, kaffihús og gistiheimili. Fjöldi listvinnustofa er á Sólheimum svo sem kertagerð, listasmiðja, keramik, vefstofa, jurtastofa og smíðastofa. Þar er kirkja, höggmyndagarður, trjásafn, hljómgarður, listsýningarsalur og fl.

Kerið

Við erum á heimleið en nokkrir staðir eru eftir sem vert er að skoða hvort sem það verður núna eða næst þegar við förum á þessar slóðir. Kerið er einn af þessum stöðum. Eldfjallafræðingar töldu áður fyrr að Kerið væri sprengigígur en þeir verða til í sprengigosum, sem geta myndað djúpa gígkatla. Rannsóknir í Grímsnesi hafa ekki leitt í ljós neitt gjóskulag sem hægt er að rekja til sprengigosa í Kerinu og er nú almennt talið að Kerið hafi upphaflega verið allstór gjallgígur. Þrastarlundur og Sogið er skemmtilegt og friðsælt svæði, ganga niður að ánni og fylgjast með náttúrunni. Þegar hallar sumri má oft sjá stóra laxa bylta sér á brotum árinnar fyrir framan Ásgarð og Bíldsfell enda Sogið annálaður stórlaxastaður.

Selfoss - Reykjavik

Þegar komið er yfir brúnna á Soginu má stoppa á útsýnisstað og virða fyrir sér ármót Sogs og Hvítár. Litamunurinn á jökulvatninu í Hvítá og tærri lindánni er oft mikill og oft má sjá mikla litaorgíu neðan ármótanna þar sem vatnið úr vatnsmestu lindá lansins blandast jökulvatninu. Þegar komið niður á þjóðveginn er stutt á Selfoss ef farið er til vinstri en við ætlum til Reykjavíkur í gegnum Hveragerði þar sem alveg má eyða dagsparti þó Eden sé farið.

Hlýleg verslunarmiðstöð er við þjóðveginn og þar inni er frumstæður jarðskjálftahermir og hægt er að sjá í gegnum glergólf sprungu undir húsinu sem talin er vera hluti af suðurlandsmisgenginu. Garðykjuskóli Ríkisins, Reykjadalur þar sem hægt er að ganga upp dalinn og fara í heita lækinn, hestaleigur, plöntusala úr gróðurhúsum og margt annað er í Hveragerði fyrir utan að ganga með Varmánni sem fóstrar fallega fiska, bleikjur, urriða og laxa. Reykjafoss kúrir í ánni og ef gætilega er farið þar fram á brúnir má sjá lónbúann en að sjálfsögðu gildir að fara varlega. Verði fiskurinn var við okkur sígur hann varlega inn undir hvítfryssið.

Spennandi ferðir

Aðrar ferðalýsingar