One night only. Watch a film inside an ice cave | Check it out!

Ferðalýsing eftir Pál Ásgeir Ásgeirsson

Snæfellsnes er sérstakt hérað sem býr yfir fleiri og fjölbreyttari leyndardómum og náttúruundrum en flest önnur héruð landsins. Hnífskarpir jallatindar raða sér eins og perlur á festi eftir nesinu endilöngu. Þar finnast freyðandi ölkeldur, söguslóðir Íslendingasagna, hraunhellar, skútar og drangar, fuglabjörg og fyrrum verstöðvar. Fremst á nesinu rís svo jökullinn, Snæfellsjökull hulinn orkuhjúp, ætlaður lendingarstaður geimskipa, inngangur að miðju jarðar. Hér finnur þú stuttan vegvísir um helstu áfangastaði Snæfellsness, bæði þá frægu og einnig hina sem færri vita um. Sumt tekur stutta stund, annað part úr degi. Þótt hringur um nesið sé aðeins 120 km er auðvelt að eyða þar 1-2 dögum eftir smekk. Komdu með okkur að skoða seli, kirkju og ölkeldur.

Hvalfjörður

Snæfellsnes býr yfir fleiri og fjölbreyttari leyndardómum og náttúruundrum en flest önnur héruð landsins. Þar renna saman saga landsins og gjöful náttúra í ómótstæðilega blöndu. Ferðalangur á leið á Snæfellsnes getur valið um tvær leiðir þangað þegar Reykjavík sleppir. Hægt er að aka undir Hvalfjörð um göngin eða taka á sig krók og aka fyrir Hvalfjörð og feta þannig í fótspor fyrri kynslóða sem alltaf fóru um Hvalfjörð enda alfaraleið þar til göngin voru opnuð 1998.

Stoppað við Staupastein

Þegar ekið er inn Hvalfjörð má segja að fyrst liggi leiðin fyrir Laxárvog þar sem Laxá í Kjós fellur til sjávar og nálægt brúnni eru fallegar flúðir í ánni og þar má á góðum degi sjá veiðimenn í harðri baráttu við laxinn. Skömmu síðar liggur leiðin framhjá Hvammsvík þar sem heitir pottar leynast í fjörunni og falleg náttúra. Rétt ofan við Hvammsvík er hægt að aka út af veginum inn á gamla þjóðveginn og staldra við hjá Staupasteini sem er sérkennilegur klettadrangur. Undir Staupasteini var venja að stoppa í ferðum fyrri tíma og súpa á nestinu.

Stríðsminjar & kræklingar

Fyrir innan næstu beygju er Hvítanes, fyrrum fjölmenn hernaðarbækistöð þar sem þúsundir hermanna höfðu bólfestu á árum seinni heimsstyrjaldarinnar þótt svolítill bryggjustúfur sé það eina sem eftir stendur. Rétt innar fellur Fossá til sjávar í fallegum fossi rétt við veginn. Þar er gömul rétt í gljúfrinu og getur verið skemmtilegt að stíga út og viðra börnin ef þau eru með. Á leirunum framundan Fossá er hægt að tína krækling sér til matar þegar fjarar út. Munið samt að kynna ykkur reglur um hvenær það er óhætt og hvenær ekki. Innst í Hvalfirði er Brynjudalur. Hann býr yfir talsverðri fegurð. Þar eru fallegir fossar og bærinn Ingunnarstaðir í Brynjudal var notaður talsvert í annarri seríu Ófærðar svo það getur verið þess virði að taka á sig stuttan krók fram í dalinn.

Glymur, hæsti foss á Íslandi

Annar vogur gengur inn úr Hvalfirði og sá heitir Botnsvogur. Fremst í voginum liggur malarvegur fær fólksbílum fram að Stóra-Botni. Þar hefst merkt gönguleið fram að hæsta fossi á Íslandi sem er í Botnsá. Hann heitir Glymur og er 198 metra hár. Frá Stóra-Botni liggur einnig vinsæl gönguleið á hinar tignarlegu Botnssúlur sem rísa fyrir fjarðarbotni. Innst í Botnsvogi sér ferðalangur stæðilega vörðu rétt við veginn. Frá henni liggur vörðuð forn gönguleið sem nefnist Síldarmannagötur áleiðis upp fjallið og yfir í Skorradal. Þessa leið ganga menn sem vilja ganga á Þyril, tignarlega klettahöfða sem gnæfir yfir Hvalfirði. Þetta er tiltölulega greið ganga og auðveld en stórkostlegt útsýni er af Þyrli yfir Hvalfjörð.

Hvalur & olía

Utan við Botnsvog er athafnasvæði sem á sér merka sögu af ýmsum ástæðum. Fyrrum hernaðarmannvirki og eldsneytisbirgðastöð í seinni heimsstyrjöldinni og áratugum saman eftir það. Þarna eru olíutankar bæði ofan jarðar og neðan og þarna er hvalstöðin sem er athafnasvæði Hvals hf. sem til skamms tíma stundaði hvalveiðar við Ísland eitt fyrirtækja. Hvalstöðin var vinsæll áningarstaður fyrr en nú er allt hljótt.

Eina braggaþorp heimsins

Á þessu svæði er einnig að finna braggahverfi sem var reist í seinna stríðinu og var notað í ýmsum tilgangi eftir það. Braggaþorpið er í góðu standi og því hefur verið haldið við. Þetta er hugsanlega eitt af fáum slíkum hverfum í heiminum sem varðveist hefur í upprunalegri mynd því braggar eru eðli málsins samkvæmt skammtímalausnir.

Séra Hallgrímur & passíusálmarnir

Utar í Hvalfirði er Ferstikla. Þar er stríðsminjasafn og hvalveiðisafn sem áhugavert er að skoða. Rétt utan við Ferstiklu er Saurbær á Hvalfjarðarströnd sem er merkur sögustaður. Þar var Hallgrímur Pétursson skáld sóknarprestur og þar er kirkja í minningu hans. Á staðnum eru upplýsingar sem vísa á Hallgrímsstein í túninu en þar á skáldið að hafa setið við yrkingar. Kannski orti hann Passíusálmana sitjandi undir steininum. Frá Ferstiklu er hægt að stytta sér leið upp í Borgarfjörð um Svínadal og Dragháls í Skorradal. Á þeirri leið kannast margir við Vatnaskóg þar sem kynslóðir ungra drengja hafa marsérað undir fánum Jesú Krists og KFUM.

Fuglagriðland í Grunnafirði

Við skulum reikna með að halda áfram út með Hvalfirði áleiðis í Borgarfjörð. Eftir að komið er á þjóðveg eitt á ný er ekið um Leirársveit framhjá Grunnafirði sem er eitt af Ramsarsvæðum á Íslandi en Ramsar sáttmálinn fjallar um sérstaka vernd fyrir fugla og fjöldi svæða um heim allan friðlýst undir merkjum hans.

Borgarnes

Undir Hafnarfjalli fer Snæfellsnes að blasa við handan Borgarfjarðar og Mýra. Við rennum yfir Borgarfjarðarbrú yfir í Borgarnes. Þar er að finna margvíslega afþreyingu, veitingastaði, kaffihús og þjónustu. Mörgum finnst Geirabakarí við brúarendann standa þar fremst meðal jafningja.

Á slóðum Egils

Næst liggur leiðin um Mýrar áleiðis út á Snæfellsnes. Í útjaðri Borgarness er ekið framhjá Borg á Mýrum þar sem Egill Skallagrímsson óx úr grasi og rétt að stíga út og fara með eitt af kvæðum hans. Við ökum yfir Hítará þar sem fornleg veiðihús með grænu þaki rómuð fyrir reimleika og sérstætt fuglasafn vekja athygli okkar. Næst ber fyrir augu stakstæðan gíg úti á flatneskjunni sem heitir Eldborg á Mýrum. Þetta er eitt af fegurstu dæmum heimsins um gíg af þessu tagi. Hægt er að aka niður að Snorrastöðum en þaðan liggur merkt gönguleið út að Eldborg og tekur líklega um 3 tíma að ganga fram og til baka.

Viltu baða þig?

Ekki langt frá Eldborg er eyðibýli sem heitir Skjálg og þar liggur vegarslóði til vinstri og sé hann ekinn á enda finna ferðalangar bílastæði fyrir Landbrotalaug sem er náttúrulaug höggvin í móberg. Um það bil tveir komast ofan í laugina í einu en skammt frá henni er borhola og úr henni rennur vel heitt vatn sem myndar stóra og grunna tjörn. Engin aðstaða er á svæðinu en þarna getur verið gaman að koma með börn sem vilja busla í tjörninni. Gangið vel um og skiljið ekkert eftir nema fótspor og minningar.

Stuðlar og ölkelda

Eftir að ekið er yfir Haffjarðará sem er fræg laxveiðiá er afleggjari sem vísar til vegar upp að Gerðubergi. Bergið er röð stórvaxinna og tignarlega stuðlabergssúlna sem eru vinsæll áningarstaður. Ögn lengra eftir sama vegi er eyðibýlið Rauðamelur og skammt norðan við bæinn eftir veiðislóða er Rauðamelsölkelda sem var áður ein frægasta ölkelda á Snæfellsnesi. Skiptar skoðanir eru um hversu gott vatnið í henni en nálægt keldunni er skilti sem vísar á hana. Áfram skal haldið vestur Snæfellsnes og fljótlega er komið að vegamótum þar sem hægt er að beygja til hægri og fara um Vatnaleið norður yfir fjallgarðinn eða halda áfram út fyrir nesið sem við gerum. Ekki löngu síðar er komið að bæ sem stendur rétt við veginn og heitir Ölkelda. Þar í túnfæti er ölkelda með krana á og hægt að skrúfa frá og fá sér bragð. Við kelduna er skilti með fróðlegum upplýsingum.

Selir á steini

Skömmu síðar er skilti sem vísar á Ytri-Tungu en þar eru fallegar fjörur með ljósum sandi. Þar er vinsælt að skoða seli sem sækja í að liggja þar uppi á skerjum og klöppum. Þeir eru furðu mannvanir og hægt að komast nálægt þeim en munið að selir eru villtar skepnur sem koma og fara eftir eigin geðþótta. Hér mætti íhuga það hvernig selastofninn við Ísland minnkar hröðum skrefum og er fjöldi dýra nú kominn niður í um 4000 en var milli 20 og 30 þúsund fyrir fáum áratugum. Eftir selaskoðun höldum við áfram og eftir stuttan spöl liggur leiðin framhjá Lýsuhóli Þar hefur verið sundlaug sem mun vera sú eina á landinu ef ekki heiminum öllum sem er með heitu ölkelduvatni.

Svarta kirkjan

Áfram er haldið og enn birtast gatnamót þar sem vegurinn liggur yfir Fróðárheiði en við höldum áfram um Útnesveg. Rétt við gatnamótin fellur tignarlegur foss af háu hamrabelti með stuðlum og heitir Bjarnarfoss. Niðri við sjóinn eru Búðir þar sem rekið er hótel og þar er Búðakirkja sem er heimsfræg á Instagram sem Svarta kirkjan. Þetta er lítil timburkirkja byggð 1847 sem var upphaflega tjörguð og svarti liturinn hefur fengið að halda sér til þessa dags.

Eini fjöldamorðinginn

Undir Axlarhyrnu ofan við Búðir stendur bærinn Öxl. Við hann er kenndur Axlar-Björn Pétursson sem þar bjó á 16.öld. Hann er eini fjöldamorðingi Íslandssögunnar sem er sagður hafa myrt 18 manns áður en hann var handtekinn og líflátinn fyrir glæpi sína. Björn drap ferðamenn og rændi eigum þeirra. Hann fól svo líkin í tjörn sem þá var í túnfætinum á Öxl.

Gengið inn í fjallið

Þegar komið er fyrir Axlarhyrnu erum við í Breiðuvík. Í miðri víkinni er bílastæði og skilti sem vísar á Rauðfeldsgjá. Gjáin er í raun mjög þröngt gljúfur sem skerst mjög djúpt inn í fjallið. Lítil á eða lækur rennur gegnum gjána og hægt er að ganga inn í fjallið þar sem maður er staddur í hálfgerðu myrkri. Þetta er auðveld ganga á heillandi stað og tekur stuttan tíma.

Sungið í hellinum

Skömmu utan er afleggjari sem vísar á Snæfellsjökul en þetta er malarvegur sem liggur upp á Jökulháls. Vegurinn er fær fólksbílum en rétt ofan við gatnamótin er skilti sem vísar á Sönghelli sem er sérkennilegur hellir. Þar inni er afar undarlegt bergmál og þar af er dregið nafn hellisins en veggir hans eru þaktir fangamörkum ferðalanga og sum þeirra nokkurra alda gömul. Besta leiðin til þess að prófa hljómburðinn í hellinum er auðvitað að bresta í söng og reyna að fá aðra gesti með sér.

Hellar, fuglar & steinbogar

Yfir okkur gnæfir Stapafell en undir því er sjávarþorpið Arnarstapi. Klettadrangar, stuðlaberg og hellar við ströndina hafa gert Arnarstapa að eftirsóttum áfangastað. Meðfram ströndinni liggur vandaður göngustígur. Á þessari leið er hægt að mynda sig á steinboga sem liggur yfir sjávarhelli og sjá fjölbreyttar stuðlamyndanir og dást að steinboga sem enn stendur. Á Arnarstapa eru veitingastaðir og þjónusta. Þaðan liggur einnig stígur meðfram ströndinni út að Hellnum og hér er færi á að skipta liði og láta suma ganga en aðra aka. Frá Arnarstapa eru gerðar út ferðir á Snæfellsjökul bæði gangandi og á snjóbíl eða vélsleðum. Gangan milli Arnarstapa og Hellna tekur um eina klukkustund og er fyrirhafnar virði. Úti á Hellnum er afar sérstætt landslag með hellum og skvompum við ströndina og gargandi fuglalífi sem þyrlast um allt. Þar við bryggju er dvergsmár veitingastaður sem heitir Bryggjuhúsið og hefur getið sér gott orð. Frá Hellnum liggur svo leiðin áfram út Snæfellsnes. Við veginn niður að Hellnum er dys Axlar-Bjarnar sem við nefndum áðan.

Snæfellsjökull

Kvaðst á við fjandann sjálfan

Skammt utan við Hellna er Þúfubjarg. Um það eru sögur um Kolbein jöklaskáld sem kvaðst á við fjandann sjálfan og hafði betur. Góðir göngustígar og útsýnispallar eru við Þúfubjarg en þar verpir svartfugl. Rétt utan við bjargið rísa hinir tignarlegu Lóndrangar og hægt að ganga frá Þúfubjargi að dröngunum og hugsanlega halda áfram alla leið út að Malarrifi. Þar er viti og gestastofa fyrir Snæfellsnesþjóðgarð með salernum og fróðlegum upplýsingum. Völ er á ýmsum gönguleiðum innan þjóðgarðsins en skammt frá Malarrifi er Vatnshellir þar sem boðið er upp á leiðsögn um iður jarðar.

Ertu fullsterkur eða amlóði?

Skammt fyrir norðan er afleggjari niður á Djúpalónssand, forna verstöð með undurfagurri fjöru og sérstæðum klettum. Þar liggja fornir aflraunasteinar enn í fjöru. Þeir mældu áður hvort menn voru gjaldgengir í skiprúm en við getum vel spreytt okkur á þeim. Steinarnir bera nöfn og heita Amlóði, Hálfsterkur og Fullsterkur. Þrautin fólst í því að taka þá upp og leggja þá upp á stallinn sem þeir liggja enn við. Amlóði mun vera um 26 kg svo margir ættu að geta lyft honum en Fullsterkur er 140 kg. Skylt var sjómönnum að lyfta steinunum í skinnklæðum sem voru löðrandi í selalýsi til að gera þau vatnsþétt. Stutt er að ganga frá Djúpalónssandi út í Dritvík sem er önnur forn verstöð sem býr yfir ríkri sögu og fögrum klettum. Þar er Tröllakirkja og afar falleg náttúruleg höfn. Á leiðinni fyrir enda Snæfellsness eru víða afleggjarar sem vísa á ýmis náttúruundur og áfangastaði eins og Hólahóla, Skarðsvík, Öndverðarnes og allir eru heimsóknar virði. Á Öndverðarnesi er fallega steinhlaðinn brunnur sem heitir Fálki og munu vera 18 þrep niður að vatni. Vatnsskortur var landlægur í þessu héraði sem er þakið gljúpu hrauni.

Hæsta mannvirki í Vestur-Evrópu

Fljótlega kemur ferðalangur að Gufuskálum. Þar er hægt að skoða undarleg hraunbyrgi sem eru hugsanlega elstu mannvirki á Íslandi sem enn standa. Þau voru notuð til að þurrka fisk og geyma hann. Þar er líka ein af fáum lóranstöðvum sem enn standa. Lóran-C var leiðsögukerfi sem var notað af ameríska hernum áður en GPS komst í notkun. Það byggði á neti stöðva sem sendu milli sín merki. Mastur lóranstöðvarinnar á Gufuskálum er 450 metra hátt og mun vera hæsta mannvirki í Vestur-Evrópu og skal ekki dregið í efa. Rétt við Gufuskála er Hellissandur, lítið sjávarþorp og þar fyrir innan er Rif og þar fyrir innan er Ólafsvík. Rétt utan við Ólafsvík er merkt gönguleið að Svöðufossi sem er tilkomumikill foss við fjallsrætur.

Kirkjufellið fræga

Í Ólafsvík eru veitingastaðir og þjónusta en svo er ekið fyrir Búlandshöfða og þá erum við komin á Grundarfjörð. Þar rís Kirkjufellið, fegurst fjalla á þessu svæði og þótt víðar væri leitað. Kirkjufellsfossar eru snotrir fossar og vandaðir stígar umhverfis þá. Hægt er að ganga á hið tignarlega Kirkjufell en ekki er ráðlegt að gera það nema í fylgd vanra fjallamanna með nauðsynlegan öryggisbúnað og það hentar sannarlega ekki lofthræddum. Fyrir ofan þorp á Grundarfirði rísa Helgrindur sem margir telja eftirsóttustu fjöll á Snæfellsnesi fyrir utan jökulinn.

Heimkynni berserkja

Frá Grundarfirði er ekið um Kolgrafarfjörð og Hraunfjörð inn eftir Snæfellsnesi. Handan Hraunfjarðar er komið í Berserkjahraun sem er afar svipfrítt og býr yfir sérstæðri sögu. Þá er á vinstri hönd Bjarnarhafnarfjall og undir því samnefndur bær þar sem er safn um hákarlaveiðar og hákarlsverkun sem tekur á móti ferðamönnum. Heillandi staður, ekki síst litla kirkjan en munnmæli segja að Rembrandt hafi ef til vill málað altaristöfluna sem hollenskir sjómenn gáfu kirkjunni í þakklætisskyni fyrir björgun úr sjávarháska. Nú er ferðalangur staddur á gatnamótum því rétt austan Bjarnarhafnar mætast Vatnaleið og þar mætti beygja til suðurs á ný. Skammt í austri rís eitt af litríkari fjöllum landsins Drápuhlíðarfjalls en þar tíðkaðist lengi að taka grjót til að þekja veggi og byggja arna á heimilum góðborgara og Drápuhlíðargrjót sérstakt hugtak í íslenskri byggingarsögu.

Geturðu þagað alla leið upp á fjallið?

Stutt er í Stykkishólm og á miðri leið af þjóðvegi niður í þetta fagra þorp blasir við lágt stakstætt fjall sem heitir Helgafell. Á því hvílir sérstök helgi. Guðrún Ósvífursdóttir er sögð grafin í kirkjugarði á samnefndum bæ við rætur fjallsins. Sú goðsögn hefur myndast að gangi maður frá leiði Guðrúnar upp á Helgafellið, mæli aldrei orð frá vörum og líti aldrei til baka geti maður óskað sér einhvers uppi á fjallinu og það mun rætast. Þetta hefur gert fjallið að vinsælum áfangastað og skemmtilegur fjölskylduleikur að vita hvort allir geti þagað á leiðinni upp. Gangan er stutt og auðveld en undanfarin ár hefur verið krafist aðgangseyris á staðnum.

Verk eftir Warhol í Stykkishólmi

Stykkishólmur er sögufrægt þorp. Þar er boðið upp á margvíslega afþreyingu og forvitnileg söfn. Þar eru frábærir veitingastaðir og þar er Eldfjallasafn Haraldar Sigurðssonar jarðfræðings sem á enga hliðstæðu og er til dæmis eini staðurinn á Íslandi þar sem hanga uppi myndir eftir Andy Warhol. Þar er einnig Vatnasafnið sem hýsir verk Roni Horn sem er heimsfrægur listamaður. Í Stykkishólmi eru gömul falleg hús sem hafa verið endurbyggð af stakri natni og þar er hægt að komast í ógleymanlegar siglingar um Breiðafjörð með sínum óteljandi eyjum.

Spennandi ferðir

Aðrar ferðalýsingar