One night only. Watch a film inside an ice cave | Check it out!

Ferðalýsing eftir Sigurð Hróarsson

Borgarfjörður er einkar fallegt og söguríkt hérað í næsta nágrenni við höfuðborgarsvæðið og tilvalið að fara þangað í dagsferð eða helgarferð.

Hvalfjörður eða Hvalfjarðargöngin?

Á leið til Borgarfjarðar er hvort heldur hægt að aka fyrir Hvalfjörð eða styttri leið gegnum Hvalfjarðargöngin. Óhætt er að mæla með því að velja Hvalfjörð ef tími leyfir. Hvalfjörður er rómaður fyrir náttúrufegurð og þar er hvarvetna mikið útsýni og fögur fjallasýn. Meðal fjölmargra áningarstaða má nefna Kjós og Meðalfellsvatn, Hvammsvík, Staupastein, Brynjudal, Botnsdal, fjallið Þyril (393 m.y.s.), hvalstöðina og Miðsand með gömlu hermannabröggunum sem er nánast eina braggahverfið í upprunalegri mynd sem til er í öllum heiminum. Staupasteinn, sem einnig er nefndur Karlinn í Skeiðhóli, Prestasteinn eða Steðji, er friðlýst náttúruvætti. Hann er skammt frá Hvammsvík og frá víkinni liggja nokkrar gönguleiðir um fallegt, kjarrivaxið land þar í nágrenninu, en meginskóglendið heitir Hvammsmörk. Fallegar og þægilegar gönguleiðir eru líka í og upp úr Brynju- og Botnsdal og í báðum dölunum eru tærar, hjalandi bergvatnsár. Fjallgöngur má velja bæði á Þyril og Botnssúlur, en af báðum þessum fjöllum er afar víðsýnt. Ganga á Vestursúlu Botnssúlna, sem er um 1100 metra há, tekur 6 – 8 klukkustundir en er hvorki erfið né torfær og hentar öllum göngugörpum. Þaðan er ægifagurt útsýni yfir Hvalfjörð, Þingvallasvæðið, og allt til jökla.

Botnsdalur

Úr Botnsdal liggur líka göngustígur að fossinum Glym sem er einn hæsti og tignarlegasti foss landsins, tæpir 200 metrar. Glymur fellur í þröngu gili og þangað er nokkuð ströng ganga og nauðsynlegt að gefa sér góðan tíma og fara varlega. Mikilvægt er að afla sér nákvæmra upplýsinga um gönguleiðina að fossinum og fylgja merktum göngustígum, bæði til að verja viðkvæma náttúru og fara sér síður að voða. Vinsælt er að ganga upp með ánni að austanverðu meðfram fossinum, yfir Botnsána ofan við fossinn, og niður með ánni að vestan. Glymur fellur í mjög aðþrengdu gljúfri og því nær útilokað að finna stað þar sem sjá má allan fossinn frá brún að botni. Botnsá fellur úr Hvalvatni sem er rúmum þremur kílómetrum ofan við Glym. Vatnið er þriðja dýpsta stöðuvatn landsins og vinsæll áningarstaður. Þangað er vitaskuld ekki hvalgengt og byggist nafn vatnsins á gamalli þjóðsögu um mann sem breyttist í hval sem synti um heimshöfin en bar að endingu bein sín í vatninu.

Hallgrímur Pétursson sóknarprestur

Við Hvalfjarðarströnd má að auki nefna Ferstiklu og Hallgrímskirkju í Saurbæ þar sem Hallgrímur Pétursson var sóknarprestur 1651 – 1669. Síðustu árin bjó hann á Ferstiklu og þar orti hann Passíusálmana. Á svæðinu eru ýmiss fyrirbæri kennd við skáldið, svo sem Hallgrímslind og Hallgrímssteinn, en sagan segir að upp að þeim steini hafi Hallgrímur hallað sér er hann orti sálmana. Hallgrímur Pétursson er að öðrum ólöstuðum merkasta trúarskáld Íslandinga og ævisaga hans ævintýri líkust. Eiginkona hans var Guðríður Símonardóttir – Tyrkja-Gudda – sem var 16 árum eldri en Hallgrímur og kynntust þau í Kaupmannahöfn þegar guðfræðineminn Hallgrímur var fenginn til að uppfræða þau (örfáu) sem leyst voru úr ánauðinni í Alsír og hreinsa þau af villutrú. Guðríður lifði mann sinn og náði 84 ára aldri. Af henni fara miklar sögur enda var hún einstök kjarnakona. Þá er Hernámssetur að Hlöðum á Hvalfjarðarströnd, skrímsli í Katanestjörn skammt frá Grundartanga og sitthvað fleira áhugavert. Frá Ferstiklu er hægt að aka inn Svínadal og áfram um Dragháls og Geldingadraga yfir í Skorradal með Skarðsheiði í vestri og er það falleg leið. Eins má halda áfram niður á þjóðveg (hringveginn) og aka sem leið liggur fyrir Hafnarfjall að Borgarfjarðarbrú. Á leiðinni er afleggjari niður að Akranesi sem ekki síður er verðugur áfangastaður með fjölbreyttri þjónustu og dægradvöl.

Borgarfjarðardalir

Rétt áður en komið er að Borgarfjarðarbrúnni yfir Hvítárósa við Borgarnes er upplagt að beygja til hægri upp í Borgarfjarðardali. Þar má t.d. skoða Hreppslaug eða skella sér til sunds, njóta náttúrufegurðar í Skorradal og Lundarreykjadal, fara á Búvélasafnið á Hvanneyri, eða aka að gömlu bogabrúnni yfir Hvítá sem er einstakt mannvirki. Brúin liggur yfir Hvítá milli Hvítárvalla og Ferjubakka og var vígð árið 1928. Brúin, sem er rúmlega 100 metra löng, var mikið verkfræðilegt afrek á sínum tíma og formfögur svo af ber. Í Skorradal er vingjarnleg náttúrufegurð, kyrrsælt stöðuvatn og fjöldi orlofshúsa. Í Lundarreykjadal má auk annars finna Krosslaug, rétt við veginn. Þar var fjöldi Vestlendinga skírður til kristinnar trúar sumarið 1000 og þjóðtrú lengi síðar að laugin væri heilög lækningalind. Reykholtsdalur er ilríkt augnayndi. Meðal áningastaða gætu verið garðyrkjubýlið Kleppsjárnsreykir og Deildartunguhver, vatnsmesti hver í víðri veröld. Þar vella upp 180 lítrar af sjóðandi vatni á hverri sekúndu. Hitaveita liggur frá hvernum um allt hérað og vermir hús og híbýli allt til Akraness. Við Deildartunguhver er líka heilsulindin Krauma sem iljar bæði sál og líkama og er allra meina bót. Í Reykholtsdal er einnig hestabúgarðurinn Sturlureykir og höfuðbólið Reykholt. Á Sturlureykjum er ferðaþjónusta og hestaleiga og boðið upp á heimsóknir í hesthús og að hvernum við bæinn en þaðan var lögð í hús fyrsta hitaveita Evrópu fyrir rúmri öld. Hestaleigur eru vissulega víðar í dalnum og í héraðinu öllu.

Reykholt

Reykholt er sjálfsagður áfangastaður og einn merkasti sögustaður landsins. Þar eru merkar fornminjar og tóftir af miklum miðaldabæ. Þar eru tvær kirkjur, misgamlar og báðar fagrar, sú eldri frá 1885-87 og opin gestum staðarins. Við kirkjuna er merkur kirkjugarður með sérstökum Sturlungareit. Þar er einnig Snorrastofa; safn- og fræðslusetur um Snorra Sturluson, og auðvitað sjálf Snorralaug þar sem skáldið, sagnaritarinn, fræðimaðurinn, stjórnmála- og auðmaðurinn Snorri Sturluson (1179-1241) naut þess að hvíla lúin bein allt þar til óvinir hans veittust að honum á ögurstundu 23. september 1241 og réðu honum bana. Tvímælalaust er Snorri í tölu merkustu rithöfunda sinnar tíðar um veröld alla, höfundur Heimskringlu, Snorra-Eddu, Ólafssögu helga og hugsanlega Egilssögu. Höggmynd af Snorra eftir norska myndhöggvarann Gustav Vigeland stendur við skólahúsið skammt frá gömlu kirkjunni. Borgarfjörður (og nágrenni hans) er, eins og önnur héruð landsins, ríkur af fornsögum og auk Egilssögu er þar m.a. sögusvið Gunnlaugssögu ormstungu, Hænsa-Þórissögu og Heiðarvígasögu. Í Hvalfirði er sögusvið Harðarsögu og Hólmverja, og Kjalnesningasaga, eins og nafnið bendir til, gerist að mestu á samnefndu nesi undir fjallinu Esju (914 m.) sem þiggur einmitt nafn sitt af aðal-kvenpersónu sögunnar sem var fjölkunnug og skörugur mikill. Víðar á svæðinu er fjöldi örnefna sem vísa til sagnanna og atburða þeirra.

Hraunfossar & Barnafoss

Úr Reykholtsdal er tilvalið að aka upp í Hálsasveit Hraunfossum og Barnafossi og áfram upp að Húsafelli. Við fossana er vinsæll göngustígur meðfram ánni, feikifagurt landslag og göngubrú yfir Hvítá í hraunið fyrir handan. Hraunfossar eru gríðarvinsæll ferðamannastaður og sannkallað náttúru-undur. Að baki nafnsins á Barnafossi er harmræn þjóðsaga um tvo pilta sem féllu af steinboga yfir ána og drukknuðu á leið sinni til kirkju að Gilsbakka í Hvítársíðu um jól endur fyrir löngu. Lét þá móðir þeirra höggva bogann og sér hans ekki lengur stað.

Húsafell

Húsafell er fallegur, friðsæll og hlýlegur griðastaður með fjölbreytta þjónustu og afþreyingu, m.a. sundlaug, golfvöll, hótel og heillandi gönguslóðir til allra átta þar sem auk annars má víða ganga fram á sérkennilegar höggmyndir Páls Guðmundssonar myndhöggvara. Ennig er þar að finna aflraunasteininn Kvíahellu, 180 kg. og ekki á hvers manns færi að jafnhenda. Húsafellsland er víða skógivaxið og magnað útsýni til fjalla og jökla. Næstur er Eiríksjökull, 1675 metra hár. Hægt er að ganga á jökulinn en það er strangt dagsverk og ekki fyrir óvana. Skammt undan, vestan Kaldadals, var jökullinn Ok, tæplega 1200 metra hár. Blessuð sé minning hans.

Frá Húsafelli eru líka í boði vélsleðaferðir á Langjökul og ævintýraferð í manngerða íshellinn „Into the Glacier“ sem á engan sinn líka. Mögnuð upplifun sem geymist í minni um aldur og ævi.

Frá Húsafelli liggur einnig leið upp í Hallmundarhraun þar sem finna má nokkra stærstu hraunhella landsins, svo sem Surtshelli, Stefánshelli og Víðgelmi. Hraunið rann á tíundu öld, sennilega um 940 – 950, og er kennt við Hallmund þann sem Grettissaga segir að ætti bústað á þessum slóðum. Merkileg frásögn af þessu gosi er í fornu kvæði, Hallmundarkviðu, en þar er elsta lýsing sem til er af eldgosi á Íslandi. Að hellunum er torfært, en Surtshellir (sem er um 14 km. frá Húsafelli) er tæpir tveir kílómetrar að lengd og hæð í aðalhellinum 8 – 10 metrar. Víðgelmir er einn rúmtaksmesti hraunhellur heimsins og er hann að finna um 2 km. suðaustur af bænum Fljótstungu í Hvítársíðu. Hann er lokaður með járnhliði og almenningi óheimill aðgangur til að vernda merka dropasteina, dropsteina og hraunstrá sem þar eru. Frá Húsafelli má aka, ef vill, um Kaldadal og Uxahryggi til Þingvalla sem er tignarleg öræfaleið og öllum ökutækjum fær að sumri. Illfær fjallvegur liggur síðan upp á Arnarvatnsheiði. Þar er allt þakið í vötnum og veiðivon víða. Annar kostur og ekki amalegur væri að aka niður Hvítársíðu og þaðan upp í Norðurárdal, ganga á Grábrók, skoða fossana Glanna og Laxfoss í Norðurá, njóta kyrrðar við Hreðavatn, heimsækja menntasetrið Bifröst eða njóta útsýnar til fjallsins Baulu (934 m.) svo fátt eitt sé nefnt.

Grábrók

Grábrók er 170 metra hár gjallgígur og allt í kring er Grábrókarhraun sem rann fyrir um 3400 árum. Grábrók ásamt systrum sínum Rauðbrók og Smábrók er friðlýst náttúruvætti og ganga á Grábrók er auðveld en þangað liggur göngustígur með manngerðum þrepum. Við rætur Grábrókar eru fallegar gamlar hraunréttir. Fossinn Glanni er í Norðurá, skammt frá Bifröst. Rétt hjá fossinum er Paradísarlaut. Vegur liggur frá þjóðveginum að Glanna, sem er formfagur foss og friðsæll en ekki hár. Frá Glanna eða Munaðarnesi má ganga að Laxfossi en við hann er mikil laxagengd. Þar í grendinni finnast plöntusteingervingar og surtarbrandur.

Á heimleiðinni er sjálfsagt að stansa í Borgarnesi þar sem í boði er fjölbreytt afþreying og þjónusta, sitthvað fyrir sérhvern ferðalang. Má þar t.d. nefna Landnámssetrið og leikbrúðusafnið Brúðuheima. Bærinn dregur nafn sitt af höfuðbólinu Borg á Mýrum sem var landnámsjörð Skallagríms Kveld-Úlfssonar, föður Egils skálds og hetju. Þar bjó síðar um hríð Snorri Sturluson. Minnismerki um Egil Skallagrímsson er við kirkjuna á Borg, en guðshúsið snýr norður-suður, þvert á flestar kirkjubyggingar íslenskra sveita. Kjartan Ólafsson, dóttursonur Egils og ein helsta persóna Laxdælasögu er grafinn í kirkjugarðinum á Borg. Brákarsund liggur milli Borgarness og Brákareyjar og heitir eftir Þorgerði brák ambátt Skallagríms og fóstru Egils.

Spennandi ferðir

Aðrar ferðalýsingar