One night only. Watch a film inside an ice cave | Check it out!

Ferðalýsing eftir Áshildi Bragadóttur

Á Reykjanesi er einhver sérstæðasta og stórfenglegasta náttúra sem þekkist í nágrenni hðfuðborgarsvæðisins. Á meðal þess sem fyrir augum ber eru hverir og gufustrókar, hraunbreiður, fuglabjörg, gígar og hellar. Þrátt fyrir mikla nálægt við Reykjavík er Reykjanesið það landsvæði sem eflaust margir Íslendingar eiga eftir að uppgötva almennilega og læra að njóta. Það er því tilvalið að taka frá dag og ferðast um svæðið og uppgötva undur þess með fjölskyldu eða vinum. Þegar ekið er úr Reykjavík er best að halda sem leið liggur í gegnum Hafnarfjörð þar sem ekið er inn á Krýsuvíkurveg (42) við Hellnahverfið, rétt áður en komið er að álverinu. Þaðan er um 20 mínútna akstur að Krýsuvík sem er einstakt gósenland fyrir alla náttúruunnendur og áhugafólk um jarðfræði.

Leiðarendi - fallegur og litríkur hellir

Ekki er úr vegi að taka á sig smá krók áður en komið er að Krýsuvík til að skoða hellinn Leiðarenda sem er við Bláfjallaveg. Leiðarendi er greiðfær og aðgengilegur hellir og bílastæðið vel sýnilegt við veginn á vinstri hönd og er aðeins stuttur spölur að opinu í gegnum mosavaxið hraunið. Leiðarendi um 900 m langur og liggur í hring í gegnum niðurfall. Fallegar jarðmyndanir eins og dropasteinar, hraunstrá og straumfægðir veggir eru í hellinum sem og litríkar útfellingar. Ferð í hellinn er hin besta skemmtun fyrir fólk á öllum aldri. Mælt er með því að hafa með vasaljós og jafnvel hjálm þar sem hellirinn er þröngur á köflum og lofthæð lítil.

Einstakar náttúruperlur við Krýsuvík

Einstakar náttúruperlur við Krýsuvík Krýsuvík er ein fegursta náttúruperla Íslands og fjölbreytt litadýrð náttúrunnar á hverasvæðinu við Seltún hefur heillað marga í gegnum tíðina. Hér ber einna hæst sprengigíginn Grænavatn, leirhverina við Seltún og Kleifarvatn. Margar gamlar gönguleiðir liggja frá Krýsuvík og hvarvetna blasir við augum kynngikraftur náttúrunnar.

Kleifarvatn - í leit að skrímsli

Kleifarvatn er stærsta stöðuvatnið á Reykjanesskaga og eitt af dýpstu vötnum landsins. Í Kleifarvatni er silungaveiði og er vatnið þekkt fyrir að vera gjöfult veiðimönnum sem þangað sækja. Í vatninu er bæði bleikja og urriði. Veiði er leyfð í öllu vatninu og ekki úr vegi að gera sér sérstaka ferð í Krýsuvík að sumarlagi til að veiða í vatninu. Út í vatnið ganga tveir að vestanverðu, Syðristapi fyrir miðju vatni en norðar er Innristapi með Stefánshöfða. Stefánshöfði er nefndur eftir Stefáni Stefánssyni eða Stebba guide en ösku hans var dreift um vatni árið 1944. Munnmæli herma að ormskrímsli svart að lit á stærð við meðal stórhveli hafi haldið sig við Kleifarvatn og sést þar endrum og sinnum. Ekki er úr vegi að hoppa út úr bílnum, njóta útsýnisins yfir vatnið og kíkja eftir skrímslinu. Gönguleiðir eru við vatnið og fuglalíf nokkuð.

Gufustrókar og bullandi hverir í Seltúni

Fimm mínútna akstur er frá bílastæðum við Kleifmarvatn að háhitasvæðinu í Seltúni. Auðvelt er að ganga um svæðið og þar er góð aðstaða fyrir gesti, merktir göngustígar og þjónustu- og salernisaðstaða. Óvíða er að finna meiri litadýrð að sjá en á þessu svæði innan um bullandi leiðhveri og sjóðandi vatnspolla. Vert er að benda á að áhugaverð gönguleið er eftir Ketilstíg, fornri alfaraleið meðfram hinu fallega vatni, Arnarvatni. Gönguleiðin er vel stikuð og tekur um 2-3 tíma.

Grænavatn

Rétt hjá Seltúni er Grænavatn sem dregur nafn sitt af hinum sérkennilega græna lit vatnsins sem stafar af brennisteinssamböndum. Grænavatn er í raun vatn sem liggur í stærsta sprengigígnum á þessu svæði og eru gígarnir um 6000 ára gamlir.

Húshólmi, Krýsuvíkurkirkja og Fjósið

Krýsuvík er fornt höfuðból sem lagðist í eyði á síðustu öld og er nú í eigu Hafnarfjarðarbæjar. Hluti af rústum bæjarins sjást enn í Húshólma en þangað er hægt að ganga sér til skemmtunar. Krýsuvík var einnig lengi kirkjustaður og eru rústir Krýsuvíkurkirkju enn sjáanlegar. Kirkjan var reist var árið 1857 en brann til kaldra kola 2010. Til stendur að endurbyggja kirkjuna á þeim stað sem hún stóð. Fjósið er hús sem stendur enn til minningar um þá búsetu sem var á svæðinu. Fjósið er áhugavert fyrir margar sakir. Má sem dæmi nefna að Sveinn Björnsson listmálari fékk húsið til afnota á áttunda áratugnum og sá til þess að húsið endaði ekki sem gapandi tóft. Húsið ber þess merki að þar var listamaður að störfum. Skreytti hann loft, veggi og hurðir hússins og lagði tröppurnar litskrúðugum teppabútum. Margir útsýnisstaðir eru í Krýsuvík og má þar helst nefna Arnarfell, dranga við Kleifarvatn. Auðvelt er að ganga á fellið og þá má nefna að kvikmyndin Flags of our father var tekin upp að hluta þar.

Glæsigígurinn Eldborg

Rétt austur af Krýsuvíkurvegi er brattur glæsilegur gjallgígur sem kallast Eldborg eða Stóra Eldborg. Gígurinn er friðlýst náttúruvætti gerður úr gjalli og kleprum. Austur úr honum liggur myndarlegur hraunfarvegur og telja margir Eldborg vera fegustan allra gíga á Suðvesturlandi. Auðvelt er að ganga upp á gíginn og kjörið að skilja bílinn eftir fyrir neðan veginn.

Krýsuvíkurberg - tilkomumikið fuglabjarg

Krýsuvíkurberg er tilkomumikið fuglabjarg og fallegur útsýnisstaður. Klettar bergsins eru um 40 m háir og 15 km breiðir og er bjargið langstærsta fuglabjarg svæðisins. Slóði liggur frá veginum sem ekki er fær öllum bílum. Hægt er að ganga að bjarginu meðfram Vestarilæk og tekur gangan rétt um hálftíma. Bergið er afar litríkt og fallegasti hluti þess nefnist Rauðaskriða. Efst á bjarginu er viti sem var reistur árið 1965 og við bjargið hafa orðið nokkrir skipsskaðar.

Kynngimagnað umhverfi Selatanga

Þegar ekið er áleiðis í áttina til Grindavíkur er skemmtilegt að taka stutt stopp við Selatanga en þar er að finna allmiklar verbúðarústir sem bera vitni um sjósókn fyrri alda. Börn hafa sérlega gaman af að ganga um rústirnar og velta fyrir sér háttum liðins tíma. Spölkorn vestan við Selatanga er stórbrotin hraunmyndun sem nefnist Katlahraun. Landslagið þar er tröllslegt og tilkomumikið með hraunborgum, hellisskútum og fleiru forvitnilegu. Sögur hafa verið um mikinn reimleika við Selatanga af draugi nefndum Tanga-Tómas. Sagt er að hann sé enn á sveimi á svæðinu og hefur hann átt það til að bregða fæti fyrir þá sem þar hafa átt leið um.

Grindavík - höfnin og gömlu húsin

Grindavík er bær sem vert er að stoppa í og njóta. Höfnin í Grindavík er með betri fiskihöfnum landsins og iðar af lífi allt árið um kring. Ýmis afþreying er í boði, tjaldsvæði, gistiheimili, golfvöllur og sundlaug auk úrvals veitingahúsa. Gaman er að þræða götur í nágrenni við höfnina og skoða þar gömul hús og garða.

Bæjarfjallið fallega

Aðgengilegt er að klífa Þorbjörn sem er bæjarfjall Gindavíkur. Fjallið er reisulegt 243 m hátt fell með sigdal á toppnum. Uppi á fellinu er gjá eða sprunga sem heitir Þjófagjá eftir 15 þjófum sem höfðust við í gjánni og stálu fé af Grindvíkingum. Tvær gönguleiðir eru algengastar þegar gengið er á Þorbjörn. Er annað hvort gengið austan megin upp þar sem gamli bílvegurinn liggur eða norðanmegin með misgenginu sem gengur í gegnum fellið. Á toppi Þorbjarnar er að finna gamla ratsjárstöð sem bandaríski herinn setti þar upp í seinni heimstyrjöldinni ásamt braggabúðum sem notaðar voru af hermönnum bandaríska hersins.

Laugin Brimketill er engin baðlaug

Ekki langt vestan við Grindavík er sérkennileg laug í sjávarborðinu sem kallast Brimketill. Um er að ræða ketil sem myndast hefur á löngum tíma vegna rofs í berginu, aðallega út frá öldugangi og útsogi. Útsýnispallur er við laugina sem gefur góða sýn yfir sjálfan Brimketil og aðra minni katla sem eru að myndast þarna á svæðinu. Það er mögnuð upplifun að standa á pallinum og sjá brimið skella á klettunum og þegar ágangur sjávar er mikill skvettist sjórinn langt upp á pallinn sjálfan. Brimketill er engin baðlaug því náttúruöflin sem þar eru að verki eru gríðarlega sterk.

Gunnuhver - stærsti leirhver landsins

Flestir hafa eflaust heyrt minnst á Gunnuhver sem er stærsti leirhver landsins og er á kraftmiklu jarðhitasvæði vestan Grindavíkur. Gunnuhver dregur nafn sitt af Guðrúnu nokkurri sem gekk aftur og olli miklum usla á svæðinu þar til prestinum Eiríki Magnússyni tókst að koma draugnum fyrir með því að senda hann í hverinn. Það er gaman að ganga um þetta svæði sem er með góðum gönguleiðum og útsýnispöllum.

Reykjanesviti

Vitar hafa löngum haft mikið aðdráttarafl og Reykjanesviti er þar engin undantekning. Vitinn stendur á bröttu felli og er hár og reisulegur í umhverfinu. Reykjanesviti er elsti viti landsins, reistur árið 1878, en vitinn hefur þó verið endurgerður nokkrum sinnum. Umhverfi vitans er fallegt og virkilega gaman að ganga út á klappirnar og njóta útsýnisins til Eldeyjar sem er þverhnípt klettaeyja nokkrar sjómílur frá landi.

Brúin milli heimsálfa

Ef áfram er ekið til vestur er næsti áfangastaður Brúin milli heimsálfa, táknræn 15 m brú milli plötuskila Norður-Ameríku flekans og Evrasíu flekans. Brúin hefur vakið mikla athygli ferðamanna því þar gefst kostur á að ganga á milli heimsálfa, að minnsta kosti jarðfræðilega séð.

Bláa lónið - heilsulind á heimsmælikvarða

Bláa lónið er næsti viðkomustaður en fyrir þá sem leggja lykkju á leið sína er vert að nefna að gaman er að koma við í Reykjanesbæ og njóta þeirrar fjölbreyttu afþreyingar og menningu sem bærinn hefur upp á að bjóða. Þá er marga áhugaverða staði er að finna á Garðskaga, við Hvalnes og Stafnes. Líklega þarf ekki að kynna Bláa lónið fyrir Íslendingum en fyrir þá sem ekki hafa komið þangað er einstök upplifun að baða sig í lóninu. Sérstaða Bláa lónsins er jarðsjórinn sem er að tveimur þriðju hluta saltvatn og einum þriðja hluta ferskvatn. Vatnið í lóninu er ríkt af heilnæmum steinefnum, kísil og þörungum sem hreinsar og mýkir húðina og rannsóknir hafa sýnt að vatnið hefur lækningamátt fyrir þá sem eru með psoriasis. Mikil uppbygging hefur átt sér stað við Bláa lónið á liðnum árum og er arkitektúr og hönnun lónsins og umhverfis þess til fyrirmyndar.

Hrafnagjá

Frá Bláa lóninu er ekki úr vegi að koma við í Hrafnagjá. Hrafnagjá er um 12 metra langt siggengi og allt að 30 m hátt og er lengsta brotalína af þeirri gerð á Reykjanesskaga. Hægt er að skoða gjánna við veginn hjá Stóru-Vatnsleysu og frá bílastæðinu sem er við mislægu gatnamótin til Voga.

Keilir

Eitt af sterkustu sjónrænu kennileitum Reykjaness er fjallið Keilir. Þetta keilulaga fjall sést víða að og er auðþekkt vegna lögunar sinnar. Ekki er hægt að ljúka þessari ferðalýsingu um Reykjanes án þess að benda á hversu skemmtilegt það er mikil skemmtun það er fyrir alla aldurshópa að ganga á þetta fallega fjall. Útsýni er ægifagur yfir höfuðborgina, Reykjanesið og enn víðar. Um 40 mínútur tekur að keyra frá Bláa lóninu og er beygt inn á Höskuldavallaveg af Reykjanesbraut og ekið að bílastæðinu við Oddafell. Gengið er yfir mosavaxið hraun áður en komið er að fjallingu og mikilvægt að verja gróðurinn fyrir ágangi eins og kostur er. Þetta er ganga sem er létt á fótinn og allir ættu að ráða við.

Allt tekur enda um síðir Venjan er að aka eftir þjóðvegi 41 til Reykjavíkur en fyrir þá sem vilja breyta útaf er hægt að að keyra Vatnsleysuströndina. Reykjanesið býr að einstakri náttúru og þó hér sé aðeins stiklað á stóru er ljóst að erfitt er að komast yfir allt á einum degi. Það er því ekki úr vegi að skoða Krýsuvík og næsta nágrenni í einni dagsferð og gera sér svo aðra dagsferð til að heimsækja björgin, hverasvæðið og náttúruminjarnar í grennd við Grindavík. Góða skemmtun!

Spennandi ferðir

Aðrar ferðalýsingar